Jarðskjálfti norðvestur af Húsavík...

Jarðskjálfti, 3,3 að stærð, varð skammt út af Húsavík laust eftir klukkan tíu í kvöld. Upptök skjálftans voru á tæplega 10 kílómetra dýpi, 2,1 kílómetra norðvestur af Húsavík og varð hans því vel vart í byggð. Engar fregnir hafa borist af tjóni. Nokkrir minni skjálftar hafa fylgt í kjölfarið, sá öflugasti mældist 2 að stærð. Hrina skjálfta sem hefur verið í slitróttum gangi á Húsavíkur-Flateyjar-misgenginu og Eyjafjarðarálnum frá því snemma í sumar tók sig upp aftur þann 5. október. Á heimasíðu Veðurstofunnar kemur fram að þar mældust um 650 skjálftar vikunar 5. – 11. október. Þar af voru sjö skjálftar stærri en 3. Þeir urðu allir í sömu hrinunni, aðfaranótt 6. október, og mældist sá öflugasti 4,1.