Norðan hvassviðri og slæm færð...

Norðaustan hvassviðri með éljum og skafrenningi gengur yfir Breiðafjörð og Vestfirði í kvöld og í nótt. Á morgun upphefst svo í norðan- og norðvestan hvassviðri eða stormur á Suðausturlandi og Austfjörðum sem gengur ekki niður fyrr en á föstudagsmorgunn. Á vef Vegagerðarinnar segir að hríðarveður sé á Vestfjörðum, þar sé færð mjög slæm og margir vegir ófærir. Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna þessa veðurhams. Viðvaranirnar á norðvestanverðu landinu gilda frá níu í kvöld til klukkan sjö í fyrramálið. Varað er við erfiðum akstursskilyrðum og líkur sagðar á að færð geti spillst.Ófært er á Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði og Dynjandisheiði að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar,þungfært á Innstrandavegi og Klettshálsi og þæfingsfærð víða, meðal annars í Ísafjarðardjúpi. Víða er éljagangur og skafrenningur segja starfsmenn Vegagerðarinnar og benda á að notast er við vetrarveg við Geiradalsá í Reykhólahreppi. Ófært er á Kleifaheiði, sem og á Fróðárheiði.

Viðvaranirnar á Suðausturlandi taka gildi á hádegi á morgun og á Austfjörðum klukkan þrjú. Í báðum landshlutum gæti vindur farið í allt að 40 metra á sekúndu þar sem veðurhamurinn verður hvað mestur. Fólk er hvatt til að sýna aðgát á ferðalögum á Austfjörðum og tryggja lausamuni. Á Suðausturlandi er sand- og grjótfok líklegt og ferðamenn hvattir til að sýna aðgát og fólk almennt til að tryggja lausamuni.Veðrið gengur ekki niður fyrr en milli níu og tíu á föstudagsmorgunn.