Óbreytt í eina viku— reiknar með alvöru breytingum næst...

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að framlengja núverandi reglugerð um eina viku og verða samkomutakmarkanir því óbreyttar fram í næstu viku. Svandís reiknar með alvöru breytingum í næstu viku og vonandi viðamiklum. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, skilaði minnisblaði til heilbrigðisráðherra á sunnudag með tillögum sínum um sóttvarnaaðgerðir innanlands.

Venju samkvæmt fór heilbrigðisráðherra með minnisblaðið og tillögurnar á fund ríkisstjórnarinnar sem kom saman til fundar í morgun.

Svandís sagði við fréttamenn eftir fundinn að núverandi reglugerð yrði framlengd um eina viku. Það hafi verið mat sóttvarnalæknis að ná betra jafnvægi á smitunum innanlands og bíða með óbreytt ástand í eina til tvær vikur.

Svandís sagðist reikna með að gripið yrði til umfangsmikilla og vonandi alvöru afléttinga strax í næstu viku. Stjórnvöld ætluðu sér að standa við afléttingaáætlun sína enda væri góður gangur í bólusetningum og nærri 40 prósent yrði komin með að minnsta kosti einn skammt í vikulok.

Hún benti jafnaframt á að það væri góður gangur á landamærunum og svo virtist sem það væri að takast að ná utan um hópsýkingarnar innanlands. „Markmiðið er að standa við þessa áætlun.“

Núverandi reglugerð átti að falla úr gildi á miðnætti annað kvöld en því hefur nú verið frestað fram til fimmtudagsins 13.maí. 20 mega koma saman og sund-og líkamsræktarstöðvum verður áfram heimilt að taka á móti helmingi af leyfilegum hámarksfjölda gesta.