„Gott að hafa varann á en erfitt að yfirgefa heimilið“...

Um 20 manns þurftu að yfirgefa heimili sín síðdegis í dag vegna hættu á skriðuföllum á Seyðisfirði. Íbúar segja leiðinlegt að þurfa að rýma en að sama skapi góð tilfinning að vita til þess að Almannavarnir hafi allan varann á. Gert er ráð fyrir að rýming vari fram yfir helgi í ljósi úrkomu sem spáð er á svæðinu. Þá verður staðan metin að nýju. Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í Herðubreið þangað sem allir eru velkomnir.

Aðalheiður Borþórsdóttir, íbúi í Múla við Hafnargötu 10 á Seyðisfirði segir leiðinlegt að þurfa að rýma heimili sitt að nýju vegna yfirvofandi skriðuhættu. „Það er ekki hægt að segja neitt annað. Það var svolítið skrýtin tilfinning.Það er fylgst vel með okkur og það er góða tilfinningin. En þetta er víst lítil hreyfing en samt nóg til þess að það er ástæða til þess að láta okkur fara úr húsi. Við erum þarna eitthvað um 20 manns sem erum að fara núna í kvöld.“

Storm-Lee Jackson sem býr einnig við Hafnargötu var á leið í fjöldahjálparstöðina þegar fréttastofa ræddi við hana. Þaðan ætlaði hún að fara á spítalann og sjá hvort hún gæti gist þar eða annars staðar.