25 prósent færri starfa við menningargreinar nú en 2008...

Mikill samdráttur hefur orðið í heildargreiðslum og fjölda starfandi fólks í skapandi greinum hér á landi frá 2008. Um 25 prósent færri starfa nú við menningargreinar en 2008 og á sama tímabili hefur þar orðið 40 prósent samdráttur í heildarlaunagreiðslum. Þetta kemur fram í úttekt Bandalags háskólamanna. „Verulega tók að draga í sundur með skapandi greinum og öðrum atvinnugreinum eftir 2013 og samdrátturinn jókst til muna eftir 2017,“ segir í yfirlýsingu frá bandalaginu. Þar kemur jafnframt fram að heimsfaraldur kórónuveiru hafi haft margfalt meiri áhrif á menningargreinar en aðrar atvinnugreinar.

„Á síðustu fjórum árum hefur þróunin verið mjög hröð. Heildarlaunagreiðslur í fjölmiðlum hafa dregist saman um 45 prósent frá árinu 2017, samdrátturinn var 41 prósent í kvikmyndageiranum og um 26 prósent innan tónlistargeirans. Samdráttur í mörgum greinum var hafinn nokkuð fyrir heimsfaraldur en efnahagsáfallið í kjölfar hans bætti gráu ofan á svart,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar kemur fram að meirihluti listamanna eigi að baki nám á háskólastigi.„Þrátt fyrir það voru starfslaun listamanna talsvert undir launum fullvinnandi verkafólks árið 2020. Starfslaun listamanna hafa dregist langt aftur úr almennri launaþróun á undanförnum árum. Á síðustu tíu árum hefur launavísitalan hækkað um 96 prósent á meðan starfslaun listamanna hafa hækkað um 49 prósent.“

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að það gæti skýrt að hluta samdrátt í einstaka greinum, meðal annars í útgáfu og framleiðslu íslenskra bóka. Árið 2019 voru gefnar út 3,4 bækur á hverja þúsund íbúa samanborið við 5,2 bækur árið 2011.„Mikilvægt er að hið opinbera marki stefnu um aukinn stuðning við menningu á Íslandi. Að öðrum kosti er hætt við að menningargreinar beri varanlegan skaða af heimsfaraldri,“ segir í yfirlýsingu bandalagsins.