Aukning í ávísunum ópíóíðalyfja...

Ávísunum á ópíóíðalyf á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um tæp 23 prósent á tíu ára tímabili. Mesta aukningin var í flokki mjög sterkra ópíóíða.

Mun meira er ávísað af ópíóíðalyfjum á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Meðan þar dró úr ávísunum jukust þær um 11 prósent hér. Þetta kemur fram í rannsókn sem birtist í nýjasta hefti Læknablaðsins.

Flestar ávísanir eru á parkódín forte, frá byrjun árs 2008 til ársloka 2017, var aukningin 20,7 prósent. Næstmest er ávísað af venjulegu parkódíni og jukust ávísanir um 15,2% en þar á eftir Tramadól með 4,7 prósenta aukningu. Þó að lítill hluti ávísananna séu á mjög sterk ópíóðalyf er aukning þar langmest, eða 85,6 prósent.

Aukningin var mest í aldurshópnum 90 ára og eldri (40,5%), næstmest í aldurshópnum 30-39 ára (36%), svo hjá þeim sem eru 20-29 ára (32,4%). Rannsóknir hafa bent til þess að yngri einstaklingar leiðist frekar út í misnotkun síðar á ævinni, þó lyfjunum sé ávísað með hefðbundum hætti og ekki sé saga um fyrri misnotkun.

En hvað getur skýrt aukninguna hjá yngri hópunum? „En langvinnir verkir eru algengir og verkjavandamál eru algeng í samfélaginu, þar getur verið að spila inn í að fólk er að nota ópíóíða sem töfralausn,“segirSigríður Óladóttir, læknanemi og fyrsti höfundur rannsóknarinnar.

Hvað með það að konur séu tveir þriðju hlutar þeirra sem fá ávísað þessum lyfjum? „Okkur grunar að það gæti verið að konur sæki fyrr heilbrigðisþjónustu og eins gæti spilað inn í að konur glíma oftar við verki og ýmis verkjavandamál eins og vefjagigt,“ segirSigríður.

Ópíóíðalyf eru gagnleg við bráðum verkjum og verkjum tengdum krabbameini. Hins vegar er gagnsemi þeirra við langvinnum verkjum ótengdum krabbameini dregin í efa. Þolmyndum og hætta á auknu verkjanæmi getur leitt til hækkandi lyfjaskammta. Íslenskar rannsóknir benda til að tíðni langvinnra verkja sé umtalsverð. Í niðurstöðum rannsóknarinnar er kallað eftir að þróuð verði þverfagleg verkjameðferð á heilsugæslunni og vinnulag við endurnýjun á ópíóíðalyfjum verði endurskoðað.