Björgunarstarf gekk vel þrátt fyrir hvassviðri...

Magnús Pálmar Jónsson, stýrimaður og sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, segir að björgunarstarf hafi gengið mjög vel í Ísafjarðardjúpi í nótt, þar sem skúta strandaði við Æðey laust eftir miðnætti. Áhöfnin hafi borið sig vel þegar þau voru hífð um borð í þyrlu Landhelgisgæslununar. „Við fengum útkall rétt eftir miðnætti og fórum af stað. Við gátum flogið beint á staðinn og þegar við komun þarna inn í Ísafjarðardjúpið þá var hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson kominn fyrir og bátur frá björgunarsveitinni í Bolungarvík,“ segir Magnús.

Hvorugt skipið komst hins vegar að skútunni sökum myrkurs, veðurs og grynninga og var því ákveðið að hífa áhöfn skútunnar um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem kom á staðinn um klukkan tvö í nótt.

Magnús segir að björgunarstarf hafi gengið mjög vel þrátt fyrir talsvert hvassviðri á svæðinu. Þá hafi áhöfnin borið sig vel.„Þau voru ekki komin í sjóbjörgunargalla en voru í fötum og sjóstakk og alveg þokkalegt ástand. Þau aðstoðuðu við að toga í tengilínuna sem við notuðum til að koma mér um borð. Við hífðum eitt í einu upp og þau báru sig vel,“ segir hann.

Áhöfninni var flogið til Ísafjarðar til aðhlynningar. Skútan komst aftur á flot í morgun og gat þá siglt á eigin vélarafli. Hún kom til hafnar á Ísafirði um ellefuleytið.