Fleiri íbúar fara úr Útkinn...

Rýming er enn í gildi í Þingeyjarsveit en gulri veðurviðvörun vegna úrkomu hefur verið aflétt. Íbúar sem ekki var gert að rýma heimili sín upplifa sig óörugga og hafa sumir sjálfir ákveðið að fara af bæjum sínum.

Ákváðu sjálf að fara

Eiður Jónsson sem býr á Árteigi tveimur kílómetrum sunnan við skriðusvæðið við Nípá, ákvað ásamt öðrum íbúum að fara af bænum í gær.

„Þegar byrjaði að rigna aftur í gærkvöldi þá ákváðum við að fara. Við vorum áður búin að vera að færa okkur á milli húsa, að fara fjær fjallinu.Aðgerðastjórnin var búin að ræða þetta við okkur hvort við vildum fara.Okkur leist þannig á að best væri að gera það. Svo var vegurinn alltaf að lokast, hann lokaðist í gærmorgun þannig að þetta var ekki erfið ákvörðun. Þegar náttúran sýnir sig svona þá er maður svolítið á tánum,“ segir Eiður.

Vegurinn lokast á nokkrum stöðum

Vegurinn um Útkinn hefur lokast á mörgum stöðum og þurftu íbúar að fá leyfi aðgerðarstjórnar til að fara til og frá bæjunum. Ryðja þurfti veginn á nokkrum stöðum til að halda honum opnum fyrir þá bæi sem ekki voru á rýmingarsvæðinu.

„Það er mikil jarðvegsfylla ofan við veginn sem er sennilega orðin um 2 metra há og það rennur vatn úrþessu og þetta er að síga niður þannig að þetta getur alveg lokað veginum eða manni sýnist það að það gæti alveg gerst,“ segir Eiður.

Vatn virðist þó vera farið að sjatna og kólnað hefur í veðri. Fundur almannavarna verður klukkan eitt í dag og má þá vænta frekari frétta um framhaldið.