Persónuupplýsingar ekki í hættu í Facebookhruni...

Ekkert bendir til að árás hafi verið gerð á Facebook í gær eða að persónuupplýsingar notenda hafi verið í hættu, segir forstöðumaður netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar. Samfélagsmiðillinn Facebook lá niðri frá því síðdegis í gær og komst ekki í samband aftur fyrr en á ellefta tímanum, eins fjöldi fólks hefur væntanlega orðið var við. Það sama átti við um Instragram og Whatsapp, sem eru í sömu eigu.

„Þær upplýsingar sem við höfum er að Facebook, sem er í rauninni bara vefþjónusta eins og allt annað sem með finnur á internetinu, það fór niður vegna tveggja mismunandi þátta. Aðallega virðist sem aðferðin sem notuð er til að auglýsa allar IP tölur, IP tölur eru heimilisföng vefþjónusta út á internetið, fór niður í gær. Og við það fóru niður svokallaðar nafnaþjónustur, þegar fólk setur nafnið Facebook.com inn í vafra þá vísar það yfir á þessar IP tölur sem eru heimilisfangið. Þar sem bæði þessi kerfi voru hýst innanhúss hjá Facebook þá virðist sem á heimsvísu allt samband við Facebook hafa dottið niður, sem hafði líka þær afleiðingar að tæknimenn Facebook komust ekki inn í búnaðinn til að laga,“ segir Guðmundur Arnar Sigmundsson forstöðumaður CERT.is, netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar.

Tæknimenn þurftu því í raun að vera á staðnum til að laga bilunina. Ekki virðist sem persónuupplýsingar notenda hafi verið í hættu.

„Nei, það er ekkert sérstakt sem bendir til þess, þetta virðist bara vera þjónusturof, kerfið fer niður og þjónustan fer niður. Tæknimenn fara nú alltaf að kíkja hvort þetta sé hluti af einhverri árás, en það er ekkert sem að bendir til þess að þetta hafi verið árás í gær þó þetta hafi tekið langan tíma og virðist sem eingöngu hafi verið um þjónusturof að ræða.“