„Við eigum ekki orð yfir þetta“...

Arnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri og einn eigenda Lebowski bars, Kalda bars, Enska barsins, The Irishman Pub og Dönsku krárinnar í miðbæ Reykjavíkur, segir hræðilegt að opnunartími veitinga- og skemmtistaða hafi ekki verið lengdur í nýjum sóttvarnareglum. Hann segir margar krár vera komnar að fjárhagslegum þolmörkum. Heilbrigðisráðherra ákvað í dagað framlengja núgildandi sóttvarnaaðgerðir um hálfan mánuð. Veitinga- og skemmtistöðum verður því áfram lokað á miðnætti og allir gestir þurfa að vera komnir út klukkan eitt.

„Þetta er hræðilegt og hefur gríðarleg áhrif á okkar rekstur og okkar starfsmenn,“ segir Arnar.„Það er mjög dapurt að við höfum ekki fengið að minnsta kosti einn auka klukkutíma til þess að fikra okkur áfram. Ég get ekki séð að það hafi orðið einhver mörg smit hjá einhverjum skemmtistöðum núna síðasta mánuðinn,“ segir hann.

„Ég held að flestir á þeim aldri sem eru að stunda bari og veitingastaði séu fólk sem er bólusett og jafnvel búið að fá COVID. Við skiljum þetta ekki. Við eigum ekki orð yfir þetta,“ segir Arnar.

Hann segir að mikið hafi verið um veislur að undanförnu þar sem gestir hafi skemmt sér lengur en til miðnættis, og nefnir hann kosningavökur stjórnmálaflokka sem dæmi.

„Það virðast ekki ganga sömu reglur yfir alla. Svo sér maður hérna í löndunum í kring sem Þórólfur vill stundum bera sig við en svo þegar honum hentar að gera það ekki þá gerir hann það ekki. Hann er bara að bíða eftir að Danmörk falli og eitthvað svoleiðis í staðinn fyrir að leyfa okkur að fá allavega klukkutíma. Það munar mínu starfsfólki gríðarlega mikið að fá kannski auka 30 tíma borgaða á mánuði,“ segir Arnar.

Heldurðu að barir séu margir hverjir komnir að þolmörkum?
„Já, já. Það eru allir búnir að þenja sig, taka auka lán og dæla inn jafnvel auknu hlutafé og svoleiðis. Það er enginn að fá afslátt af leigunni neins staðar,“ segir Arnar.„Ég held að Þórólfur ætti nú bara að bóka sig í eitthvað gigg með bandinu sínu og prófa að spila niðri í bæ og sjá að allir eru að haga sér vel,“ segir hann.