Ekki eins fáar sólskinsstundir frá 1943...

Ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í septembermánuði eins og nú síðan árið 1943. Þær voru 52,7 sem er 65,6 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um tíðarfar í september. Mánuðurinn var fremur illviðrasamur, hlýr framan af en síðustu tíu dagarnir voru kaldir. Úrkoma var víðast hvar vel yfir meðallagi og óvenju þungbúið suðvestanlands.Vindur á landsvísu var 0,4 m/s yfir meðallagi í september og óvenjulegt norðvestan hvassviðri gekk yfir landið.

„Það snjóaði víða í byggð í lok mánaðar og var jörð alhvít á mörgum stöðum á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Jörð var flekkótt tvo daga á Akureyri, en alauð alla aðra daga. Í Reykjavík var alautt allan mánuðinn,“ segir í yfirlitinu.