Fjórar kærur hafa borist dómsmálaráðuneyti...

Fjórar kærur hafa borist dómsmálaráðuneytinu vegna endurtalningar í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum. Þetta staðfestir Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins. Fulltrúar landskjörstjórnar kynna greinagerð

Undirbúningskjörbréfanefnd fundar öðru sinni klukkan eitt í dag á nefndasviði Alþingis vegna málsins. Fyrir fundinn koma fulltrúar landskjörstjórnar, sem kynna greinargerð stjórnarinnar frá fundi hennar í síðustu viku. Þá mæta lögfræðingar frá skrifstofu Alþingis og kynna efni minnisblaðs um hlutverk og lagaramma undirbúningsnefndar og kjörbréfanefndar.

Karl Gauti kærir til lögreglu og Alþingis

Magnús Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, frambjóðandi Samfylkingar, hafa kært endurtalninguna til Alþingis og dómsmálaráðuneytis. Karl Gauti Hjaltason, Miðflokki, hefur lagt fram kæru hjá lögreglu en segist í samtali við fréttastofu einnig ætla að kæra til Alþingis. Sú kæra verði lögð fram á næstu dögum. Hólmfríður Árnadóttir, frambjóðandi Vinstri grænna, sem endurtalningin hafði einnig áhrif á, hefur ekki kært en hún segist íhuga málið.