Tjón á höfnum fyrir norðan hleypur á milljónum...

Tjón varð á að minnsta kosti þremur höfnum á Norðurlandi eftir óveðrið sem gekk yfir í síðustu viku. Mikil ágjöf var yfir varnargarða með þeim afleiðingum að grjót spýttist upp og skemmdi meðal annars viðlegukanta, olíutanka og skúra. Gamla höfnin á Blönduósi má illa við ágangi

Afleiðingar óveðurins sem gekk yfir norðanvert landið í síðustu viku eru enn að koma fram. Hafnir á Norðurlandi fóru víða illa en á Blönduósi þarf að fara í aðgerðir til að laga höfnina. Ágúst Þór Bragason, forstöðumaður eigna- og framkvæmdasviðs á Blönduósi segir hörkubrim hafa verið á svæðinu, grjót hafi kastast yfir höfnina og við landtenginguna. Hann segir mannvirkið gamalt og þarfnist viðgerða sem fyrst.

Skúr, rafmagnslagnir og og vigt ónýt á Hofsósi

Á Hofsósi var einnig mikil ágjöf yfir varnargarðinn í höfninni með þeim afleiðingum að vinnuskúr og vigt eru ónýt. Þá urðu skemmdir á rafmagnslögnum, olíutankur á bryggjunni færðist úr stað og myndavélakerfið skemmdist. Dagur Þór Baldvinsson, hafnarstjóri segir að allt að 12 metra öldur hafi verið fyrir utan fjörðinn og lætin í höfninni eftir því. Bryggjan sjálf virðist þó hafa sloppið en hreinsunarstarf á svæðinu er þegar farið af stað.

Brimið skall beint á hafnargarðinn

Á Hauganesi var staðan áþekk en loka þurfti höfninni fyrir umferð í nokkra daga á meðan grjót var hreinsað af svæðinu. Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar segir tjónið þar hlaupa á milljónum, og fellur kostnaðurinn á sveitarfélagið.„Það varð mjög óvenjuleg sjávarstaða og brimið skall svona nokkurn veginn svona beint á hafnargarðinn hjá okkur, gekk mjög yfir hafnargarðinn.“

Varð mikið tjón á mannvirkjum?

„Já það varð töluvert tjón, það hleypur á einhverjum milljónum. Það varð tjón bæði á varnargarðinum sjálfum og svo líka á vatnslögnum þarna á svæðinu og bara á hafnarmannvirkinu.“