„Erum kallaðir vorboðarnir“...

„Það er bæði heiður og ánægja að vinna með þessu dásamlega fólki”, segir Ágústa Bernharðsdóttir prófstjóri í Háskólanum í Reykjavík. Haustprófin eru byrjuð í HR og Ágústa hefur fengið til liðs við sig hóp af fólki sem hefur það verkefni að sitja yfir í prófunum og vera nemendum til halds og trausts.

„Þetta er eitt það besta við starfið og það er slegist um að komast í hópinn. Ég er alltaf með biðlista sem hefur lítið hreyfst undanfarin þrjú ár”. Ágústa talar af reynslu því hún er að byrja sextánda árið sem prófstjóri í HR. Einar Magnússon fyrrverandi skólastjóri er einn af reynsluboltunum í hópi yfirsetufólksins. „Þetta er alveg óskaplega skemmtilegt. Það er gott fyrir eldri borgara að hafa að einhverju að hverfa. Þetta er skemmtilegur skóli og hér ríkir góður andi. Starfsfólkið er yndislegt og tekur vel á móti okkur. Við erum kallaðir vorboðarnir þegar við mætum í þessar yfirsetur”.

„Hefði viljað hafa haft öll þessi tækifæri”

Karen Emilsdóttir er líkt og Einar búin að sitja yfir í mörgum prófum. „Það er bara svo gaman að hitta allt þetta fólk sem er á svipuðum aldri og ég. Við eigum hérna margar skemmtilegar stundir áður en við hefjum störf og viðmótið er yndislegt.” Vildir þú ekki vera í þeirra sporum? “Ég hefði viljað hafa haft öll þessi tækifæri sem þau hafa í dag. Þetta var bara allt annað þegar ég var ung”. Hvernig líst þér nú á unga fólkið í dag? „Fólkið er yndislegt og kurteist og það er skemmtilegt að vera með þeim.” Ágúst Jónatansson er nýr í hópnum og hann segist spenntur fyrir þessu nýja verkefni. „Ég stóð frammi fyrir því fyrir nokkrum árum að það var stutt eftir af starfsævinni. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvað ég gæti gert. Mig langaði að halda áfram og vera virkur. Ég þarf að vera innan um fólk og mér líður vel að vera með öðrum. Mér var svo bent á að sækja um hér og það bar þann árangur að ég byrjaði hérna núna í haust. Ég get ekki annað sagt en að vel hafi verið tekið á móti mér. Hér vilja allir allt fyrir mig gera”.

Var ekki tilbúin að hætta að vinna

Einar Magnússon segir að félagslega hliðin skipti miklu máli. „Það er góður andi í hópnum þegar við hittumst á morgnana áður en við göngum til verka. Það er mjög gefandi að vera innan um fólkið hérna”. Þú sem skólastjóri hefur nú einhvern tíma þurft að taka einhvern á teppið en þarft væntanlega ekki að gera það hérna? „Nei þetta er þroskað fólk og mikið um hópavinnu og það er gaman að sjá hvernig menn vinna saman.” Hjördís Sigurðardóttir hefur mikla reynslu af því að sitja yfir nemendum sem þreyta próf. „Ég er búin að vera í þessu frá 2013 og þetta eru því orðin 8 ár. Ég vann í 25 ár í hárgreiðslu og fór síðan í Landsbankann þar sem ég var í 22 ár. Í fjármálageiranum varð maður að hætta 65 ára. Ég var ekki tilbúin til þess og langaði að halda áfram að vinna. Ég sé ekki eftir því að hafa byrjaði hérna”. Eru nemendurnir ekki sæmilega kurteisir við þig? „Jú þau eru voða sæt og ljúf þegar maður hittir þau á förnum vegi.” Hefur einhver boðið þér í útskriftarveislu? „Nei ekki ennþá en hver veit.”

Klapp á öxlina getur breytt miklu

Ágústa prófstjóri er stolt af sínu fólki. „Nemendur tala um hvað það sé gott að vera innan um fólkið. Það er svo gott fyrir krakka sem koma stressaðir og kvíðnir að hitta fólk sem sýnir því hlýju og kærleika. Það getur breytt miklu að fá klapp á öxlina og svona afa og ömmustraumar geta oft hjálpað til.” Það styttist í að prófin eiga að byrja og Ágústa fer yfir þau atriði sem yfirsetufólkið þarf að hafa í huga. Svo er gengið til stofu. Steinar Matthíasson er öllum hnútum kunnugur og með honum í för er Guðrún Rögnvaldsdóttir sem er í hópi nýliða. Þeirra verkefni er að sitja yfir nemendum sem þreyta próf í línulegri algebru en fyrsta verkefni þeirra er að finna stofuna. „Það eru margir nýjir að byrja og þeir fara í stofurnar með fólki sem hefur góða reynslu. Nýliðunum er ekki hent út í djúpu laugina. Þau fá að undirbúa sig vel áður”, segir Ágústa Bernharðsdóttir.