Fjórar bilanir á háspennukerfinu síðasta mánuðinn...

Fjórar bilanir hafa orðið á háspennukerfinu á höfuðborgarsvæðinu síðasta mánuðinn með tilheyrandi rafmagnsleysi í heilu hverfunum. Tvær þeirra hafa orðið eftir að grafið hefur verið í strengi og tvær voru háspennubilanir. Þetta segir í svari upplýsingafulltrúa Veitna við fyrirspurn fréttastofu. Tvisvar á sama stað

Fyrsta bilunin af þessum fjórum varð 21. október eftir að verktaki gróf í sundur streng við Snorrabraut. Viku síðar leysti út rofi í aðveitustöð við Barónsstíg vegna strengs sem bilaði utan við dreifistöðina við Egilsgötu, þann sama og grafið var í þann 21. október. Unnið er að endurnýjun á báðum háspennustrengjunum sem liggja frá stöðinni.

Sömuleiðis var grafið í streng þann 2. nóvember á Seltjarnarnesi. Leysti þá rofi út í aðveitustöð við Meistaravelli. Í gær varð svo rafmagnslaust milli Háaleitis og Miklatúns vegna bilunar í aðveitustöð við Barónsstíg. Unnið er að því að greina hvað olli biluninni.

Mæla strengi þegar bilun kemur upp

„Rofar í aðveitustöðvum rafmagns leysa út þegar bilun kemur upp í strengjum. Það er öryggisráðstöfun sem kemur í veg fyrir skemmdir af völdum bilunar,“ segir í svari við fyrirspurn fréttastofu. Þurfi að taka rafmagn af strengjum er tækifærið nýtt og þeir mældir.

„Ef einhver veikleiki kemur fram við þá mælingu eru þeir settir í fulla ástandsgreiningu. Eins eru skipulagðar ástandsgreiningar gerðar á strengjum og ef veikleikar mælast í þeim eru þeir endurnýjaðir eins og þörf er á áður en bilun verður.“