Segir sig sjálft að það er ekki gott að byrja í mínus...

Formaður BHM segir taugaveiklunarbragur sé að rökum seðlabankastjóra og peningastefnunefndar. Seðlabankastjóri sé í pólitískum skilmingum sem valdi honum áhyggjum. Slík vinnubrögð vegi að sjálfstæði og sýni óhlutlægni bankans. Hann segir vaxtahækkunina tala beint inn í kjaraviðræður sem eru fyrirhugaðar á næsta ári.

Seðlabankinn kynnti í morgun fjórðu stýrivaxtahækkunina á sjö mánuðum. Henni er ætlað að kæla hagkerfið sem bankinn spáir að vaxi hratt á næsta ári.

Sjá: Passar að partýið fari ekki úr böndunum

Stýrivaxtahækkun Seðlabankans er sú fjórða á árinu; Í maí, ágúst og október hækkuðu vextir um 0,25 prósentustig, en í morgun var ráðist í brattari hækkun, eða hálft stig. Vextir fóru lægst niður í 0,75 prósent en við hækkunina í morgun eru þeir komnir upp í 2 prósent.

Friðrik Jónsson formaður BHM ræddi um áhrif stýrivaxtahækkunnar Seðlabankans í kvöldfréttum RÚV. Hann segir rökin fyrir hækkuninni bera vott um taugaveiklun.

„Ég verð að játa það að mér finnst vera svolítill taugaveiklunarbragur á rökum peningastefnunefndar og seðlabankastjóra og þetta orðbragð ekki alveg sæmandi. Seðlabankastjóri að auki hefur á undanförnum mánuðum verið að stunda sérkennilegar pólitískar skilmingar. Í dag er það verkalýðshreyfingin, um daginn var það lóðaskortur í Reykjavík, þar áður verkalýðshreyfingin þannig að það er einhver þráhyggja við lögbundnu hlutverki verkalýðshreyfingar að semja um kaup og kjör fyrir sína umbjóðendur þannig að ég hef svolitlar áhyggjur af þessu. Svona læti vega óneitanlega að sjálfstæði og sýn á óhlutdrægni bankans.“ segir Friðrik.

Hann segir að áhrifin á komandi kjaraviðræður séu óumflýjanleg.

„Fyrir mína umbjóðendur, sem sömdu í umhverfi krónutöluhækkana sem voru sérstaklega sniðnar að því að mæta leiðréttingu fyrir láglaunastéttir og sérstaklega þar sem meirihluti eru konur, þá erum við í þeirri stöðu að miðað við þróun kaupmáttar og þróun verðbólgu, að í lok þessa kjarasamnings verðum við mögulega með neikvæða kaupmáttarþróun. Ef ég byrja í mínus í næstu kjarasamningum, það segir sig sjálft að það er ekki þægilegur staður til að vera á.“ segir Friðrik.