Ísland dökkrautt í fyrsta sinn og nýgengi aldrei hærra...

Ísland er í fyrsta sinn merkt dökkrautt á korti sóttvarnastofnunar Evrópu, sem tekur mið af nýgengi smita síðustu fjórtán daga. Samkvæmt litakóðunarkerfi stofnunarinnar eru ríki dökkrauð ef fjórtán daga nýgengi fer yfir 500. Ísland hefur verið rautt síðustu vikur, eftir að nýgengið fór yfir 200.

Það hefur síðan haldið áfram að hækka og nýgengið hefur nú aldrei verið hærra hér á landi frá upphafi farsóttarinnar. Samkvæmt tölum covid.is frá því í gær eru nú 562 smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Nærri átján hundruð eru í einangrun og nærri 2.300 eru í sóttkví.

Dökkrauði liturinn er sérstaklega áberandi í ríkjum Austur-Evrópu, en einnig eru Holland og Belgía dökkrauð auk nokkurra héraða Þýskalands eins og sjá má á kortinu hér að ofan.