Löggan má rannsaka síma grunaðs dópsala...

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu megi rannsaka farsíma sem hún lagði hald á í sumar. Lögreglan telur að í símanum sé að finna upplýsingar sem geti nýst við rannsókn á meintri fíkniefnasölu eigandans. Málið sem nú sætir rannsókn hjá lögreglu hófst síðasta sumar, nánar tiltekið 10. ágúst, þegar lögreglu var tilkynnt um fíkniefnasölu. Lögreglumenn sem komu á staðinn fundu megna kannabislykt við opinn bílskúr íbúðar í Reykjavík. Þar reyndust tveir menn vera fyrir og gaf annar þeirra heimild til húsleitar. Lögreglumenn fundu talsvert magn fíkniefna í íbúðinni, þar á meðal nokkuð í söluumbúðum. Auk þess fundust peningar sem lögreglan telur að hafi verið aflað með sölu fíkniefna. Peningunum hafði verið komið fyrir í prótíndollu og í frysti voru þrjár krukkur með hvítu efni.

Maðurinn sem leyfði húsleitina sagði að efnin væru til einkanota, eign hans og hins mannsins sem var á staðnum þegar lögreglan mætti þangað. Það dregur lögreglan í efa og vildi fá að rannsaka símann til að leiða í ljós hvað væri satt. Dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur og Landsrétt veittu báðir heimild til þess að rannsaka símann og afrita upplýsingar úr honum.