Lýsa málsatvikum á sautján blaðsíðum...

Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa birti í gær drög að ítarlegri málsatvikalýsingu á framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi vegna þingkosninga í haust. Þar er farið yfir það á sautján blaðsíðum hvernig staðið var að talningu og endurtalningu atkvæða og hvaða upplýsingar hafa komið fram í störfum nefndarinnar. Margt af því sem lýst er í drögunum hefur þegar komið fram, svo sem um tildrög endurtalningar og hvað gert hefur verið til að varpa ljósi á gang mála. Ekki eru dregnar ályktanir í drögunum um hvort og þá hvaða áhrif einstaka þættir eða talningin í heild kunna að hafa haft á niðurstöðu talningar.

Drög að málsatvikalýsingu

Í drögunum er að finna lýsingar yfirkjörstjórnarfulltrúa, starfsfólks við talningu, umboðsmanna og frambjóðenda á því sem átti sér stað frá því flokkun og talning atkvæða hófst þar til endurtalningu lauk og fundargerð var kláruð í tölvupóstum nokkru síðar. Jafnframt eru lýsingar á ferðum undirbúningsnefndar til að kanna atkvæðaseðla, bæði þá sem notaðir voru til að greiða atkvæði og þá sem gengu af. Enn fremur eru lýsingar á húsnæði, inngöngum og upptökum úr öryggismyndvélum.

Niðurstaða seinni talningar leiddi til breytinga á atkvæðatölum allra flokka sem og á fjölda auðra seðla og ógildra. Fimm frambjóðendur sem virtust vera orðnir þingmenn á kosninganótt féllu út við endurtalningu og tóku fimm aðrir þeirra stað sem jöfnunarþingmenn. Þeir sem voru inni eftir seinni talningu fengu útgefin kjörbréf og teljast því fullgildir þingmenn nema eitthvað breytist.

Undirbúningsnefndin heldur áfram fundahöldum þar sem hún freistar þess að komast að niðurstöðu um hvernig skuli meta gildi talninganna. Þing kemur saman á þriðjudag og verður niðurstaðan kynnt í síðasta lagi þá.