Neyðast til að leita annarra leiða til að fjölga rýmum...

Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir það mikil vonbrigði að ekki hafi tekist að fjölga hjúkrunarrýmum til að létta álagi af Landspítalanum. Húsakostirnir hafi ekki hentað. Ráðist verði í fjölþættar aðgerðir til að leysa vandann í stað þess að bæta nýjum húsakynnum í notkun. 

Samþykkt var í síðustu fjárlögum að bæta við eitthundrað hjúkrunarrýmum sem áttu að vera komin í notkun um mitt þetta ár. Rýmin áttu að vera í húsnæði sem þegar hefði verið byggt og væri unnt að breyta lítilsháttar. Viðræður hafa staðið yfir, eftir útboð, við Sóltún öldrunarþjónustu og Heilsuvernd.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir Heilsuvernd hafa boðið tvær mismunandi byggingar. Verkfræðistofur voru fengnar til að kanna hvort þær hentuðu. Í ljós hafi komið að önnur þeirra var illa farin og það hefði þurft að gera við hana og breyta miklu fyrir mjög háar fjárhæðir. Hin hafi verið í betra standi en hafi einnig kallað á verulegar breytingar. Um er að ræða Hótel Sögu og Suðurlandsbraut númer 34.

„Það hefði tekið mjög langan tíma að koma henni í gagnið og okkur þótti þetta bara ekki góður kostur. Sérstaklega í ljósi þess að þetta voru býsna fá rými sem hefðu komist inní þá byggingu.“

Hún segir mikil vonbrigði að þetta sé niðurstaðan.

„Það kom okkur á óvart hvað þurfti mikið að breyta þessu húsnæði. Sérstaklega í ljósi þess að fjölmiðlaumfjöllunin hafði verið pínulítið þannig að húsnæðið væri hálf tilbúið og að það væri auðvelt að koma þar fyrir húkrunarrýmum en annað kom á daginn.“

Nú verði ráðist í fjölþættar aðgerðir til að leysa vandann.

„Það er dagdeildarþjónusta auk ýmis konar endurhæfingarþjónustu.Það verður líka aukið við heimaþjónustu á vegum heimahjúkrunar borgarinnar og svokallaðs Selmuteymis sem er sérhæft teymi sem styður við heimahjúkrunina. Heilsugæsla Reykjavíkur mun koma að þessu líka þannig að það eru mjög fjölþættar aðgerðir sem að koma þarna að.“