Óvíst hvort mismunun eftir bólusetningu skili árangri...

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir óvíst hvort það myndi skila árangri í baráttunni við kórónuveiruna að mismuna fólki á grundvelli bólusetningar. Fari svo að þriðja bólusetningin sé jafn áhrifarík og vonast sé til, megi vel ræða slíkt fyrirkomulag. Þeim löndum fjölgar sem mismuna fólki á grundvelli bólusetningar og umræða um að aðrar sóttvarnareglur eigi að gilda um fólk sem ekki þiggur kórónuveirubólusetningu hefur verið áberandi að undanförnu. Bent hefur verið á að 10% þjóðarinnar séu óbólusett en í þessum hópi sé þó hátt í helmingur þeirra sem greinast.

„Ég fagna allri umræðu,“ segir Þórólfur. „Mér finnst þetta málefnaleg umræða en mér finnst skipta máli að menn séu með rétt viðhorf í þessu. Það er að segja: mér finnst varla taka því að tala um þessa hluti fyrr en við vitum faglega hvort það muni skila árangri að mismuna fólki á einhvern máta. Og eins og staðan er núna finnst mér mjög vafasamt að hægt sé að segja það.“

Þórólfur segist alla tíð hafa verið mótfallin skyldubólusetningum. Besta leiðin sé að höfða til skynsemi fólks. „En ef okkur tekst hins vegar að sýna fram á að þriðjabólusetningin er bylting miðað við bólusetningu 2,þá geta menn farið að ræða þetta,“ segir Þórólfur.

„En það er pólitísk ákvörðun og siðfræðilegar umræður þurfa að fara fram. Það er ekki sóttvarnalæknir sem tekur ákvörðun um það.“