Hærri skattar á efnameiri tryggi almannaþjónustuna...

Formannaráð BSRB varar við því að skorið verði niður í almannaþjónustu og hvetur til þess að auðlegðarskattur verði tekinn upp á stóreignafólk, fjármagnstekjuskattur og veiðigjöld aukin verulega. Þetta vill formannaráðið að verði notað til að auka almenna velsæld. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að nægur peningur sé til í samfélaginu til að tryggja sterka velferð án þess að ganga á andlega og líkamlega heilsu starfsfólks í almannaþjónustu. Þetta kemur fram í ályktun formannaráðs BSRB. Ráðið krefst þess að fjárveitingar til almannaþjónustu verði auknar verulega og segir það lykilinn að því að komast út úr þeirri erfiðu stöðu sem leiði af heimsfaraldri covid. Formannaráðið segir að það hafi verið mistök að skera niður í almannaþjónustu eftir bankakreppuna 2008 og nú verði fólk að læra af þeim mistökum. „Starfsfólk almannaþjónustunnar hefur verið undir gríðarlegu álagi og undirmönnun er víða vandamál,“ segir í ályktuninni.„Það er pólitísk ákvörðun að vanfjármagna almannaþjónustuna. Formannaráð BSRB hafnar þeirri leið enda dregur hún úr velsæld og möguleikum til verðmætasköpunar.“

Óvissan mikil og erfið

Sonja Ýr segir að samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eigi ekki að fara í niðurskurð strax. „En hins vegar hafa verið aðhaldsaðgerðir á stofnunum í almannaþjónustunni og þær geta einfaldlega ekki staðið undir því og síðan á að snúa mjög hratt við kúrsinum.“ Hún segir að óvissan sé enn þá mjög mikil þegar óljóst er um fjárlög næsta ársog innviðirnir þoli ekki niðurskurð á þessum tímapunkti, hvort sem litið er til afkomutryggingar eða þjónustu sem stofnanir veita.

„Alþjóðastofnanir spá því að næsti faraldur verði faraldur kulnunar,“ segir Sonja Ýr.„Þess vegna horfum við til þess að það þarf að tryggja velsældina, það þarf að auka lífsgæði fólks, til þess að við séum ekki raunverulega að búa til meiri kostnað inn í framtíðina með því að spara til skamms tíma litið.“ Sonja Ýr segir það hafa komið í ljós að kulnun síðustu ára sé afleiðing þess að álagið hafi aukist og fólk sé að hlaupa hraðar en áður, fólk geti haldið þetta út í einhvern tíma en svo bregðist varnarkerfi líkamans. Langtímarannsóknir hafi sýnt að þriðjungur þeirra sem verða fyrir kulnun hafi ekki náð sér sjö árum seinna. „Það er mjög mikilvægt að við tryggjum þannig starfsumhverfi að allir komi heilir heim, hvað þá núna þegar fólk er búið að vinna hörðum höndum að því að koma okkur öllum út úr þessum faraldri beri ekki byrðarnar af því með langtímabreytingum eða detti út af vinnumarkaði.“