Skoða að kaupa 1.500 skammta af tímamóta COVID-lyfi...

Heilbrigðisyfirvöld hér á landi skoða nú að kaupa allt að 1.500 skammta af lyfinu molnupiravir en því hefur verið lýst sem tímamótalyfi gegn veikindum af völdum COVID-19. Yfifrvöld hafa þegar keypt lyf til að meðhöndla COVID-19 á sjúkrahúsum fyrir um 160 milljónir króna gegnum samevrópsk innkaup, auk annarra hefðbundinna lyfja. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Lyfjastofnun Evrópu hefur gefið út leiðbeiningar til lyfjastofnana í Evrópu varðandi COVID-lyfið molnupiravir ef þær vilja veita undanþágu fyrir notkun þess.

Bretar hafa þegar samþykkt lyfið og pantað 480 þúsund skammta sem væntanlegir eru til landsins í næsta mánuði. Heilbrigðisráðherra landsins sagði lyfið vera sögulega stund í baráttunni við faraldurinn.

Þá hafa Danirkeypt lyfið og fá þeir sínar fyrstu töflur fyrir jól. „Bóluefni verndaokkur gegn því að verða veik en hægt verður að nota töflurnar ef viðkomandi er svo óheppinn að smitast,“ sagði forstjóri dönsku Lyfjastofnunarinnar.

Á vef Lyfjastofnunar Evrópukomfram að gefa eigi lyfið eins fljótt og auðið er eftir að viðkomandi greinist með COVID-19 og mest fimm dögum eftir að viðkomandi fer að sýna einkenni. Taka á lyfið tvisvar á dag í fimm daga enekki er mælt með því að gefa óléttum konum lyfið.

Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir, sagði við fréttastofu í síðustu viku að þetta væri fyrsta lyfið sem rannsóknir hefðu sýnt að drægi úr veikindum, hættunni á að leggjast inn á spítala og minnkaði líkur á dauðsföllum.

Lyfið væri mikilvæg viðbót en kæmi ekki í stað bólusetningar.„Þetta er miklu dýrara og virkar eingöngu á meðan þú ert að taka lyfið en bólusetningin verndar okkur mánuðum saman og jafnvel árum.“