Ófær gata og klósett í sjónum í veðurofsa á Borgarfirði...

Ófært varð á Borgarfirði eystra í dag eftir að sjór og grjót flæddu yfir götuna í gegum þorpið. Þá hefur flætt yfir bryggjur í smábátahöfninni og landfestar losnuðu á einum bát. Klósetthús í sjónum

Mikið hvassviðri gengur nú yfir Austurland. Á Borgarfirði eystra hafa sjór og grjót flætt yfir varnargarða og bryggju og valdið tjóni. Starfsmenn sveitarfélagsins hafa staðið í ströngu við að festa báta í höfninn. Þá losnaði klósetthús og hafnaði í sjónum. Björn Skúlason, verkstjóri áhaldahúss í þorpinu var á leiðinni niður á bryggju og mátti ekki vera að því að veita viðtal þegar fréttastofa náði tali af honum.

Þorpsgatan ófær

Björn Aðalsteinsson, Borgfirðingur, er einn þeirra sem áttu í vandræðum með að komast leiðar sinnar í dag. „Ég er bara í minni vinnu, skaust í hádeginu og ætlaði svo ekki að komast til baka vegna þess að gatan var orðin ófær þannig að ég þurfti að fara svona fjallabaksleið. Það hefur náttúrlega verið mikill vindur og óhemju brim og samfara stórstreymi þannig að það þá gengur oft grjót upp á Þorpsgötuna, eins og við köllum hana,“ segir Björn.

En það er brjálað veður þarna hjá ykkur?

„Já það er leiðindaveður en ekkert eins og oft verður hérna sko.“