Verkefnisstjóri skimana við krabbameini ráðinn...

Verkefnisstjóri skimana fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hefur verið ráðinn og tekur til starfa 1. mars næstkomandi. Sigríður Dóra Magnúsdóttir staðfesti þetta við fréttastofu í dag. Stefnt er að því að hefja skimanir á seinni hluta ársins.  Lengi hefur verið kallað eftir því að hefja skimun við krabbameini í ristli og endaþarmi, líkt og tíðkast víða í nágrannalöndum og Bandaríkjunum. Heilbrigðisráðherra tók ákvörðun í nóvember 2020 um að hefja undirbúning að framkvæmd þeirra. Umsjón skimana verður á vegum Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fékk verkefnið á sitt borð síðasta sumar.

Stefnt er að því að bjóða einstaklingum á aldrinum 50 til 74 ára að taka þátt í skimun. Nánari útfærsla á hvaða aldurshópur fær boð í fyrsta áfanga er í vinnslu. Notuð verða svokölluð FIT-próf, þar sem þátttakendur fá sýnatökusett sent heim, taka hægðarsýni sjálfir og senda til baka.

Sjá einnig:Ísland eftirbátur við skimanir á krabbameini

Víða í Evrópu og Bandaríkjunum er byrjað að skima fyrir sjúkdómnum hjá einstaklingum um fimmtugt. Í Bandaríkjunum hefur komið til tals að hefja skimun við 45 ára aldur. Flestir sem greinast með krabbamein í ristli eða endaþarmi eru yfir fimmtugt. Meðalaldur þeirra sem greinast er 69 ár. Tíðni krabbameina hjá yngri en fimmtugum hefur verið að aukast nokkuð síðustu ár að sögn Helga Birgissonar, yfirlæknis krabbameinsskrár hjá Krabbameinsfélaginu og sérfræðings í skurðlækningum ristils og endaþarms. Hann segir það mögulega lífstílstengt.