Danir óttast að neyðast til að skila fleiri handritum...

Ný viðhorf til skila á menningarverðmætum til upprunalanda þeirra gæti leitt til þrýstings á Dani að skila Íslendingum handritum sem enn eru geymd þar í landi. Þetta er mat stjórnarmanna við Árnasafn í Kaupmannahöfn. Prófessor segir öflugt rannsóknarsetur þar í borg skila meiri árangri. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag þar sem greint er frá því að safnið hafnaði norsku þjóðarbókhlöðunni um að fá lánuð nokkur handrit.

Það olli forstjóra bókhlöðunnar vonbrigðum en ástæðan var sögð sú að handritin létu á sjá væru þau höfð til sýnis lengur en þrjá mánuði. Eins var vísað til rannsókna við Kaupmannahafnarháskóla.

Hinsvegar hafi Anne Mette Hansen forvörður hjá Árnasafni viðurkennt í þættinum Kulturen á DR að stjórnarmenn safnsins hafi talið fordæmi geta skapast þannig að Íslendingar krefðust þess að fá fleiri handrit.

Eins var vísað til þess áherslumáls að senda menningarminjar aftur til upprunalanda líkt og Englendingar og Frakkar hafi þurft að gera. Það er svokölluð „repatriering“.

Nefnd sem var skipuð í menntamálaráðherratíð Lilju Alfreðsdóttur ræðir nú þær hugmyndir aðað koma fleiri handritum til varðveislu á Íslandi. Gísli Sigurðssonprófessor hjá Árnastofnun í Reykjavík segir brýnt að hafa í huga að handritin séu fjársjóður sem sinna þurfi af fullum sóma.

„Það væri miklu meiri árangur fyrir okkur að það væri öflugt rannsóknarsetur í Kaupmannahöfn heldur en að öll handritin kæmu til Íslands,“ segir Gísli.