Danir senda nemendur í hraðpróf tvisvar í viku...

Skólastarf hefst í Danmörku á morgun eftir jólafrí og þar eins og hér á landi eru miklar áhyggjur af nýrri bylgju covid-smita fljótlega eftir að skólastarf hefst. Dönsk stjórnvöld boðuðu til blaðamannafundur í morgun þar sem fyrirkomulag starfsins var kynnt. Bæði nemendur og starfsfólk fara í covid-próf tvisvar í viku og stjórnvöld segja óumflýjanlegt að smitfjöldi taki kipp fljótlega eftir að skólastarf hefst. Pernille Rosenkrantz-Theil, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti fyrirkomulagið á fundinum en þar voru líka fulltrúar sveitarfélaganna og landlæknisembættisins. Helene Propst varalandlæknir sagði skólastarfinu fylgja sýkingar, ekki aðeins covid heldur aðrar veirusýkingar, en það yrði gripið til ýmissa aðgerða til að lágmarka covid-smit. Þar væri bólusetning barna árangursríkust og að tryggja að þau mæti ekki veik í skólann.

Rosenkrantz-Theil sagðist geta fullvissað foreldra um að það væri óhætt að senda börnin í skólann. Það þyrfti ekki að grípa til aðgerða í skólunum og skipta nemendum upp í smærri hópa heldur yrði látið duga að skima nemendur og starfsfólk tvisvar í viku.

Hér heima var starfsdagur í flestum grunnskólum landsins í gær til að skipuleggja skólastarfið. Stefnt er að því að halda starfinu eins hefðbundnu og kostur er, en sóttkví starfsmanna mun líklega setja strik í reikninginn. Útfærslur á smitvörnum og hópaskiptingu eru mismunandi eftir skólum en fram kom í fréttum í gær að ráðamennstefna að því að funda nær daglega með skólastjórnendum til að tryggja að skólarnir geti verið opnir og starf þar með sem eðlilegustum hætti.