Uggur í skólafólki og foreldrum í upphafi annar...

Viðbúið er að skólastarf raskist eitthvað vegna faraldursins á næstunni. Bæði vegna sóttvarnaráðstafana og þess hve kórónuveirusmit eru útbreidd og tilheyrandi einangrun og sóttkví hjá starfsfólki og nemendum.  Starfsdagur var í grunnskólum víðast hvar 3. janúar og skólastjórnendur reyna að ráða fram úr því hvernig skólastarfi verður háttað þegar það hefst.

Fyrirsjáanlega verða erfiðar heimtur á starfsfólki vegna faraldursins; sums staðar er búist við að allt að fimmtungur starfsfólks forfallist vegna smits eða sóttkvíar og eins eru ekki allir foreldrar í rónni með að senda börn sín í skólann. Elínrós Benediktsdóttir skólastjóri Ölduselsskóla í Reykjavík segir þar lagt upp með eins hefðbundið skólastarf og hægt er, sóttvarnir hafi til dæmis áhrif á mötuneytið og nemendur á efri stigum geti ekki farið í matsalinn. Reynt verði þó eftir fremsta megni að hafa starfið eðlilegt, vanti marga starfsmenn verði lögð áhersla á yngri nemendurna.

Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla segir marga foreldra áhyggjufulla vegna stöðunnar; fyrirsjáanlegra truflana á skólahaldi og að sumir hefðu kosið að skólahaldi væri frestað.

Elínrós segist lítið hafa heyrt frá foreldrum sem vilja halda börnum sínum heima en býst allt eins við að það breytist þegar skólinn fer af stað.Foreldrar líkt og skólafólk bíði átekta.

Arnar er ekki endilega bjartsýnn á að staðan verði allt önnur eftir rúma viku, sóttvarnalæknir vildi fresta skólahaldi þangað til.

Hann á ekki von á öðru en bæði börn og starfsmenn smitist og því sé hætt við að smit breiðist hratt út þegar skólinn byrjar. Arnar telur að heilt yfir hefðu margir foreldrar viljað fresta skólahaldinu. Hann hefur líka áhyggjur af langvarandi áhrifum faraldursins á nemendur hvort sem er félagslega eða á námið.

Elínrós segir ekki einfalt að svara því hvort fresta hefði átt skólahaldi, það hafi víðtæk áhrif og ekki sé einfalt fyrir alla að vera heima með börnin.