Aukaverkanir margfalt sjaldgæfari en fylgikvillar covid...

Allar vísbendingar eru um að bólusetning virki betur gegn omíkron afbrigðinu hjá börnum en fullorðnum, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir að börn sem fá tvo skammta af bóluefni séu álíka vel varin gegn delta afbrigði kórónuveirunnar og fullorðnir sem hafa fengið þrjá skammta. Delta afbrigðið er enn algengara í smitum yngri barna en omíkron þótt síðarnefnda afbrigðið sé orðið algengast á landsvísu. Þetta kemur fram í pistli Þórólfs á vef sóttvarnaryfirvalda. Þar spyr hann og svarar því hvers vegna mælt er með bólusetningu fimm til ellefu ára gamalla barna. Þórólfur segir að delta afbrigðið sé enn mikilvæg orsök covid hérlendis, sérstaklega hjá þessum aldurshópi. Bólusetning með tveimur skömmtun veitir um 90 prósenta vörn gegn delta og dregur úr hættu á smitum og sérstaklega á alvarlegum veikindum vegna omíkron.

Þórólfur segir að þótt svo ekkert fimm til ellefu ára gamalt barn hafi verið lagt inn á sjúkrahús vegna covid hér á landi hafi 0,6 prósent bandaríska og evrópskra barna með einkenni þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda. Þar af hafi tíu prósent þurft að leggjast inn á gjörgæslu. Þórólfur segir að smit geti valdið alvarlegum veikindum en að aukaverkanir eftir bólusetningu séu margfalt sjaldgæfari hjá fimm til ellefu ára börnum en alvarlegir fylgikvillar covids eftir delta-smit. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu alvarleg veikindi geta hrjáð börn sem smitast af omíkron afbrigði covid.

Bólusetning að hefjast

Bólusetning fimm til ellefu ára barna er að fara á fullt samhliða því að bóluefni sem hannað var fyrir börn kemur til landsins. Á upplýsingafundi almannavarna í dag kom fram að 250 börn hafa þegar verið bólusett. Það eru í mörgum tilfellum börn sem eru í aukinni áhættu á að veikjast alvarlega af covid. Í pistli sóttvarnalæknis kemur fram að búið er að bólusetja um helming danskra barna með einum skammti.

Byggir á samþykki foreldra

Á næstunni verður forsjármönnum fimm til ellefu ára barna boðin bólusetning fyrir börn sín. Forsjármenn fá skilaboð sem þeir verða að bregðast við. Forsjármenn verða að svara því hvort þeir þiggja bólusetningu fyrir börn sín, vilja bíða með hana eða hafna bólusetningu. Skilaboðunum munu einnig fylgja upplýsingar um bólusetningu barna á þessum aldri. Þórólfur segir í pistli sínum að ef forsjármenn taka ekki afstöðu til boðs um bólusetningu verði ekki til strikamerki fyrir börnin og þau verða ekki bólusett þótt svo þau komi á bólusetningarstað. Skilaboð verða aðeins send þeim forsjármönnum sem eru með sannreyndar tengiliðaupplýsingar. Fái forsjármenn ekki boð fyrir börn sína þurfa þeir að sækja um bólusetningu í gegnum heilsugæsluna eftir 15. janúar.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir,læknir og verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að börn verði ekki bólusett nema skýr vilji forsjármanns liggi fyrir. Hverri tilkynningu til forsjármanns um boð um bólusetningu fylgir tengill sem nota á til að svara því hvort bólusetja eigi barnið. Ef barn er með einn forsjármann verður sá að staðfesta vilja til þess að barnið verði bólusett. Ef barnið er með tvo forsjármenn þurfa báðir að samþykkja bólusetningu, lýsi þeir ólíkum skoðunum verður barnið ekki bólusett. Berist ekkert svar verður barnið ekki bólusett.

Forsjármenn verða að fylgja börnum í bólusetningu eða tilgreina aðra fylgdarmenn. Sá sem fylgir barni í bólusetningu verður að vera reiðubúinn að framvísa skilríkjum á bólusetningarstað.