Ókræsileg sjón blasti við rútubílstjóra á Héraði...

Óveðrið sem gekk yfir Austurland í fyrradag olli miklum vandræðum, meðal annars hjá rútubílstjóra á Egilsstöðum. Hurðin á einni rútunni fauk upp og aðkoman var ekki glæsileg. „Það eru ekki alltaf jólin að standa í þessum rúturekstri. Það er nú aðeins farið að sjá á gírstöngina. Ég er búinn að moka pínulítið. Svo er bara eins og það sé setið í öllum sætum. Það hefur bara verið blindbylur inni í bílnum,“ segir Hlynur Bragason, eigandi Sætis ehf.

Þó að ekki hafi snjóað mikið var nægur snjór fyrir sem vindurinn þyrlaði upp á mánudaginn var. Hlyni brá heldur betur í brún þegar hann vitjaði bíla sinni í morgun. Hann var nýbúinn að moka sig niður á bílstjórasætið þegar við hittum hann í hádeginu. „Þetta hefur komið fyrir mig áður en það hefur aldrei farið svona mikill snjór aftur eftir öllum bílnum. Það er bara aftasta sætaröðin sem hefur sloppið. En annars er þetta bara yfir allt. Hún hefur bara fokið upp hurðin og svo hefur verið svarta bylur hérna. Það er bara eins og sitji snjókarlar í sætunum. Þau eru alveg full. Þetta er nú bara snjór. Maður hefur náttúrulega aðaláhyggjurnar af mælaborðinu og þessu rafmagnsdóti. Maður þarf að ná öllu í burtu, þá er ekki svo mikil hætta á rakaskemmdum ef þetta hlánar ekki ofan í rafmagnsdótið. Þetta hlýtur að vera bílaframleiðandanum að kenna. Það eru ekki nógu góðar læsingar á hurðinni. Standast ekki svona veður. Við viðurkennum aldrei mistök,“ segir Hlynur í gamansömum tón og bætir því við að sér hafi fyrst og fremst fundist þetta fyndið.