Álfabrennum og flugeldasýningum víða frestað eða aflýst...

Hátíðarhöld vegna þrettándans, sem er í dag, eru víðast með óvenjulegu sniði vegna samkomutakmarkana. Þrettándabrennum og flugeldasýningum hefur sums staðar verið aflýst eða þeim frestað, ýmist vegna veðurs eða sóttvarna. Óveður og samkomubann setja skugga á hátíðahöld

Það er hefð fyrir því að kveðja jólin með flugeldum eða álfabrennum. Lítið fer fyrir slíkri gleði nú í ár, líkt og í fyrra, vegna strangra sóttvarnareglna.

Upplýsingar um fyrirkomulag á þrettándanum má finna á heimasíðum bæjarfélaga landsins, en hér verður stiklað á stóru.

Í Hafnarfirði, á Akureyri og í Stykkishólmi er þrettándagleði aflýst annað árið í röð vegna kórónuveirufaraldursins. Í Mosfellsbæ var flugeldasýningu dagsins aflýst vegna veðurs.

Litlir púkar haldi sig heima

Áratugum saman hafa litlir púkar farið á kreik á þrettándanum í Grindavík og bankað upp á í heimahúsum og fengið sælgæti. Í ár, líkt og í fyrra, þurfa púkarnir að halda sig heima við.

Sums staðar hefur gleðinni aftur á móti verið frestað. Á Selfossi var ákveðið aflýsa blysför og brennu á þrettándanum vegna sóttvarna. Flugeldasýning er enn á dagskrá, en vegna óhagstæðrar veðurspár hefur henni verið frestað fram á laugardag. Fólk er hvatt til njóta hennar heiman frá sér eða úr bílum sínum til að allra sóttvarna sé gætt.

Í Vestmannaeyjum verður þrettándagleði ÍBV einnig haldin á laugardag. Kveikt verður á kertum á Molda og í framhaldinu munu jólasveinarnir horfa til byggða ofan af Há, og veifa til barnanna. Gleðinni lýkur með flugeldasýningu.

Þrettándadagskrá í Reykjanesbæ hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna slæmrar veðurspár næstu daga. Fyrirhugaðir voru bílaútvarpstónleikar með Friðriki Dór og flugeldasýning, sem vonir standa til að hægt verði að halda síðar.

Þrettándagleði Hattar á Egilsstöðum fer fram á morgun föstudag. Þar verður flugeldasýning sem flestir íbúar á Héraði ættu að geta notið að heiman.

Engin þrettándagleði verður á Ísafirði í ár, ekki vegna samkomutakmarkana þó, heldur af fjárhagsástæðum.