Betur fór en á horfðist á Vesturlandi í nótt...

Vesturland slapp vel í veðrinu í nótt. Tíðindalítið var í landshlutanum í suðaustan storminum sem fór yfir sunnan- og vestanvert landið. Viðvaranir voru appelsínugular en svo virðist sem fólk hafi hlýtt tilmælum, tjóðrað lausamuni og haldið sig innandyra. Lögreglan á Vesturlandi segir að engin veðurtengd mál hafi komið upp í nótt. Stormurinn hafi jafnvel verið mýkri á manninn en búist var við.

Rafmagnslaust tvisvar á sex dögum

Rafmagnslaust varð á Fellsströnd, Skarðsströnd og Saurbæ í Dölum um tíma þegar Saurbæjarlínu sló út. Halla Sigríður Steinólfsdóttir, bóndi á Ytri-Fagradal segir að það hafi ekki gert að sök, þetta sé þóí annað sinn á árinu 2022 sem verður rafmagnslaust þar.

Sjá einnig: Aðalgatan í Ólafsvík skemmd eftir mikinn sjávargang

Mesta tjónið varð í morgun, þegar allar viðvaranir voru þegar dottnar úr gildi. Með hækkandi sjávarstöðu gerði mikinn sjógang á norðanverðu Snæfellsnesi. Grjót kastaðist yfir varnargarða og á veginn bæði norðan við Fróðárheiði og í Ólafsvík. Ólafsbraut í Ólafsvík varð fyrir miklum skemmdum á kafla á milli innra- og ytra Klifs austan við bæinn og var lokað um tíma í morgun.