Fjarvistir farnar að bíta í matvælaiðnaði...

Þótt vel á sautjánda þúsund séu í einangrun eða sóttkví þá hefur lykilfyrirtækjum og stofnunum tekist að halda úti grunnþjónustu. Staðan í matvælaiðnaði er hins vegar orðin afar erfið. Viðbragðsgeta lögreglu, slökkvi- og sjúkraliðs er með eðlilegu móti og ekki er skortur á björgunarsveitarfólki.

Tekist hefur að halda úti samgöngum, strætó og flugfélögin hafa haldið áætlun og vöruflutningafyrirtæki náð að halda aðfangakeðjunni óslitinni.

Nánast öllum viðmælendum fréttastofu ber þó saman um að álagið hafi aukist til muna og ekki megi mikið út af bregða svo að röskun verði á starfsemi.

Erfiðleikar við mönnun á Landspítala er þekkt og staðan í heilbrigðis- og velferðarþjónustu er víða viðkvæm.

Birgjar og framleiðendur í matvælaiðnaði finna orðið áþreifanlega fyrir fjarveru starfsmanna. Erfiðara er að veita viðskiptavinum þjónustu og viðskiptavinirnir eiga sömuleiðis í vandræðum og hafa jafnvel þurft að grípa til lokana.

Veitingastöðum lokað

Hamborgarfabrikkan tilkynnti í gær um tímabundna lokun í Kringlunni og Höfðatorgi. „Við misstum í sjálfu sér lungað úr starfsmannahópnum í annars vegar einangrun og hins vegar sóttkví á ansi skömmum tíma. Þannig að það var eiginlega ekkert annað í stöðunni,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, markaðsstjóri Gleðipinna sem eiga og reka Hamborgarafabrikuna.

Viðmælendur fréttastofu í geiranum segja að reglugerð um vinnusóttkví, sem auglýst var í lok árs í fyrra en gildistöku hennar síðan frestað, eða reglur um að þríbólusettir verði undanþegnir sóttkví eins og nú er verið að íhuga, myndi gjörbreyta stöðunni. Jóhannes tekur undir það. „Ef maður hugsar bara út frá okkar rekstri þá myndi það breyta stöðunni ef að sóttkvíarreglurnar væru öðruvísi. Tala nú ekki um ef fólk þyrfti ekki að fara í sóttkví.“

Skert framleiðsla hjá Sóma

Á meðan þúsundir eru ýmist í einangrun eða sóttkví getur sú staða hæglega komið upp að tímabundinn skortur verði á einstaka vörutegundum. Einhverjir tóku kannski eftir því að úrvalið á hinum sívinsælu Sómasamlokum var minna en alla jafna en vegna veikinda og sóttkvíar starfsfólks þurfti að draga úr framleiðslu. Sums staðar gripu menn jafnvel í tómt.

Aðdáendur Sóma þurfa þó ekki að örvænta því stefnt er að því að framleiðsla verði komin á fullt á næstu dögum.