Formaður BHM vill að bólusettir njóti meiri réttinda...

Friðrik Jónsson, formaður BHM, segir það ekki lengur verjandi að láta allt jafnt yfir alla ganga, bólusetta sem óbólusetta. Fyrir utan veiruna sjálfa séu þeir sem láti ekki bólusetja sig vegna leti, sérvisku eða samsæriskenninga stærsta ógnin. Þetta kemur fram í röð tísta sem Friðrik birtir á Twitter-síðu sinni.

Þar segir hann að þessi hópur sé stærsta ógnin við heilbrigðiskerfið, við örþreytt heilbrigðisstarfsfólk og stærsta ógnin við þá sem ekki geti þegið bólusetningu af heilsufarsástæðum. „Þau eru stærsta ógnin við lýðheilsu, geðheilsu og efnahag.“

Ég skal segja það upphátt: Stærsta ógnin tengt þessari veiru, utan veirunnar sjálfrar, er fullorðið fólk sem vegna leti, sérvisku eða samsæriskenninga lætur ekki bólusetja sig. 1/5
— Friðrik Jónsson, formaður BHM (@FormadurBHM) January 6, 2022

Friðrik segist ekki vera fylgjandi skyldubólusetningu en afleiðingaleysi ábyrgðarleysis sé heldur ekki ásættanlegt. Æskilegast sé að vera með jákvæða hvata til bólusetninga en ekki megi útiloka neikvæða hvata. Rétt sé að reyna mildina þar fyrst. „Hins vegar er ekki lengur verjandi að láta allt jafnt yfir alla ganga, bólusetta sem óbólusetta,“ skrifar Friðrik.

Af þeim sjö sem nú eru á gjörgæsludeild Landspítalans eru fimm óbólusettir. 91 prósent landsmanna, 12 ára og eldri, eru bólusettir. Farsóttanefnd Landspítalans lýsti yfir áhyggjum af óbólusettum í frétt á vef spítalans fyrir áramót.„Tölur um fjölda innlagna og alvarlegra veikinda meðal fólks í þessum hópi tala sínu máli.“

Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í gær að til greina kæmi að slá af sóttkví þeirra sem hafa fengið örvunarskammt og að þeir færu frekar í svokallaða smitgát.

Smitgát er ekki formlega skipuð sóttkví en mikilvægt er að sýna aðgát og gæta vel að persónubundnum sóttvörnum, forðast mannmarga staði að óþörfu og sleppa fjölmennum viðburðum. Viðkomandi getur farið í skóla eða vinnu en er beðinn um að hafa í huga að smit er ekki útilokað.