Rafmagnslaust á Fellsströnd, Skarðsströnd og Saurbæ...

Rafmagnslaust er í Saurbæ og Dölum, Fellsströnd og Skarðsströnd. Þetta kemur fram á vefsíðu Rarik. Þar segir að rafmagnsbilun hafi orðið um þrjúleytið í nótt og að leit standi yfir að biluninni sem veldur. Karl Matthías Helgason er á bilanavaktinni hjá Rarik og segir flokk manna farinn af stað til að kanna málið, þrátt fyrir leiðindaveður, enda láti mannskapurinn slíkt ekki stoppa sig. Hann segir straumlaust allt frá aðveitustöðinni í Glerárskógum, rétt norðan Búðardals, um Dalina í átt að Saurbæ, Skarðsströnd, Fellsströnd og nokkur hundruð notendur því án rafmagns.

Er þetta í annað skiptið sem straumlaust er á þessu sama svæði á nýju ári, því þar fór rafmagn líka af strax á nýársdag, skömmu eftir hádegi, þegar bilun varð á tveimur stöðum í Svínadal og lína slitnaði í Saurbæ. Þá tókst ekki að koma rafmagni á hjá öllum notendum fyrr en undir morgun daginn eftir. Karl vonar að sú verði ekki raunin að þessu sinni, en segir ómögulegt að fullyrða neitt um það á þessari stundu.

Viðgerðaflokkur Rarik á Vesturlandi hefur haft í nógu að snúast á nýja árinu, því hann var líka kallaður út í fyrrinótt til að laga línu sem slitnaði í Laxárdalnum.