Þörf á sé samkeppnisvænni umgjörð á flugvellinum...

Samkeppniseftirlitið hefur sent stjórnvöldum átta tilmæli sem miða að því að bæta umgjörð um starfsemi á Keflavíkurflugvelli, skapa samkeppni, draga úr kostnaði, efla ferðaþjónustu og auka hag almennings. Þetta segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu. Átlit eftirlitsins byggir á athugunum á starfsemi Isavia og rekstri flugvallarins undanfarin ár.

„Á liðnum árum og misserum hefur komið fram allmörg mál sem varða starfsemina á Keflavíkurflugvelli og vekja áleitnar spurningar um það hvernig Isavia nálgast samkeppni og samkeppnismál. Af þessum málum má draga þá almennu ályktun að bæta þurfi stefnumörkun á þessu sviði,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í tilkynningunni.

Tilmælin sem eftirlitið sendi fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og ferðamálaráðherra eru eftirfarandi:

„1. Tryggt verði að lög sem Isavia starfar eftir séu ekki túlkuð með þeim hætti að þau þrengi gildissvið samkeppnislaga

2. Settur verði skýr og gagnsær rammi um gjaldtöku Isavia – Gjaldtaka lúti reglum á þeim sviðum þar sem fyrirtækið er í einokunarstöðu

3. Settar verði reglur um framkvæmd og efni útboða og sérleyfissamninga sem varða úthlutun á aðstöðu á eða við flugvöllinn – Samkeppnissjónarmið verði höfð að leiðarljósi

4. Settar verði reglur um þátttöku Isavia í samkeppnisstarfsemi á eða við flugvöllinn þar sem jafnræði og hlutlægni verði tryggð

5. Staðinn sé vörður um samkeppni í flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli

6. Úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli taki mið af hagsmunum almennings og ferðaþjónustunnar af virkri samkeppni í flugi til og frá landinu

7. Kannaðar verði leiðir til að auka hagkvæmni í starfsemi Keflavíkurflugvallar

8. Eigendastefna Isavia taki tillit til framangreindra tillagna og verði gerð opinber.“

Þá segir Samkeppniseftirlitið að þar sem Isavia sé markaðsráðandi, njóti einokunarstöðu í rekstri flugvalla og þar sem smæð þjóðarinnar og lega landsins hverfist flugsamgöngur um einn flugvöll sé þýðingarmikið að hugað sé að samkeppni í umfjörð og starfsemi Keflavíkurflugvallar. Vísað er til nýlegra tillagna Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í skýrslu stofnunarinnar.

„Að því marki sem stjórnvöld fallast ekki á tillögur OECD eða tillögur Samkeppniseftirlitsins, er mælst til þess að tekin verði opinber afstaða til þeirra svo ekki ríki vafi um afdrif viðkomandi tillagna eða tilmæla. Óskar eftiriltið jafnframt eftir áframhaldandi góðu samtali við stjórnvöld um þessi mál,“ segir í tilkynningunni.