„Verður að vera alvöru og verður að vera sárt“...

Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri, segist aldrei hafa fengið jafn stóran stresshnút í magann og þegar Bubbi Morthens mætti á rennsli fyrir söngleikinn Níu líf, þar sem engu er haldið eftir um líf tónlistarmannsins. Fáir íslenskir tónlistarmenn henta jafn vel sem efniviður í söngleik og Bubbi Morthens. Hann hefur verið að í rúm 40 ár og eftir hann liggur hafsjór af lögum og ljóðum sem hafa lifað með þjóðinni öll þessi ár. Fjallað er um sýninguna Níu líf í Söngleikjum samtímans, nýjum þáttum á Rás 2 þar sem fimm nýir íslenskir söngleikir eru teknir fyrir.

Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri, handritshöfundur og leikari, fékk það hlutverk að koma ævi Bubba á svið. Ólafur hefur verið fastur gestur á söngleikjasviði landsmanna um nokkurt skeið. Stærsta verk hans er án nokkurs vafa söngleikurinn um Ellý, sem hann skrifaði ásamt Gísla Erni Garðarssyni, en helsti munurinn á þessum sýningum Ólafs er að Bubbi er sprelllifandi og til staðar til að sjá hvernig farið er með hann á sviðinu.

Engin miskunn

Það fór því þannig að sýningin var unnin í samstarfi við Bubba. „Það var alveg frábært að vinna að þessari sýningu og handritinu að henni með Bubba,“ segir Ólafur. „Hann er alltaf viðfangið og viðstaddur og ég gat leitað til hans, spurt álits og hann sagði mér sögur. En hann tók líka þá frábæru afstöðu að treysta mér og setja allt á borðið, hann hélt engu eftir. Hann rifjaði oft á tíðum upp erfiðar stundir og tímabil en hann treysti mér og sagði við mig í upphafi: Þetta verður að vera alvöru og þetta verður að vera sárt. Það má ekki sýna mér neina miskunn.“

Þegar Ólafur spurði Bubba einn daginn að því hvað hann vildi ekki að fjallað yrði um í sýningunni var tónlistarmaðurinn beinskeyttur að vanda. „Ég sagði bara við hann, ef þú spyrð mig aftur að þessu þá erum við búnir að mála okkur í horn. Þannig að ekki spyrja mig framar að þessu, heldur gerðu það sem þér dettur í hug.“

Stærsti stresshnúturinn

Þessu fylgir vissulega mikil ábyrgð, segir Ólafur. „Ég var mjög glaður með það traust sem hann sýndi mér. Það stóð aldrei til að gera fegraða mynd af honum, heldur eitthvað sem við sjáum í ljóðabókum hans, þar sem hann opnar sig alveg inn að merg og dregur ekkert undan.“

Ólafur, sem hefur starfað við leikhús í fjölmörg ár, játar það að sýningin tók á taugarnar. „Kvöldið sem ég vissi að Bubbi væri að koma að horfa á rennsli. Það er sennilega stærsti stresshnútur sem ég hef upplifað í mínum maga. Hvað finnst honum svo? Ef við setjum okkur í þessar stellingar, hér er sett á svið frásögn um ævi þína, konurnar sem þú skildir við og hvernig þú klúðraðir hinu og þessu. Þetta er sérstök staða.“

Það losnaði svo um kvíðahnútinn þegar Bubbi kom til hans skælbrosandi og sagði:„Þetta er geggjað!“

Í nýrri seríu af Söngleikjum samtímans á Rás 2 kynnumst við fleiri nýjum söngleikjum en í þetta sinn skoðum við heimahagana og kynnum okkur fimm nýja íslenska söngleiki.