1400 á biðlista hjá Bjargi eftir hagkvæmri leigu...

Rúmlega 1400 eru á biðlista eftir íbúð hjá Bjargi íbúðafélagi. Þrátt fyrir hraða uppbyggingu síðustu ár lengist listinn þar sem þörfin fyrir hagstætt húsnæði var og er mikil. Framkvæmdastjóri Bjargs segir sífellt fleiri sveitarfélög sækjast eftir samstarfi. Flestar íbúðir Bjargs eru í Reykjavík en sífellt fleiri sveitarfélög bætast í hópinn. Íbúðirnar eru fyrir fólk sem er virkt á vinnumarkaði og á aðild að ASÍ eða BSRB. Björn Traustason er framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags.

„Sveitarfélögin hafa staðið vel á bak við okkur í að útvega okkur lóðir í verkefnið, þannig að núna erum við með í byggingu og undirbúningi um 600 íbúðir sem eru í pípunum í dag.En jafnframt hefur listinn verið að hækka því að það sem gerist er það að íbúðir fara í leigu og þetta spyrst út og fólk fer að átta sig á því hvað er í boði hjá Bjargi. Nýjar góðar íbúðir á hagstæðu verði, að þá bætir í listann hraðar en við náum að saxa á hann,“ segir Björn.

Reykjavíkurborg er búin að gefa það út að þeir ætli að standa með okkur næstu árin og útvega okkur lóðir á hverju ári á meðan við erum að vinna á þessum lista,“ segir Björn en auk íbúða í Reykjavík, á Bjarg íbúðir á Akranesi, Þorlákshöfn, Selfossi, Akureyri og enn fleiri sveitarfélög hafa leitað eftir samstarfi. Þá er bygging hafin á íbúðum í Hveragerði og tekin verður fyrsta skóflustungan af íbúðum í Grindavík í dag. Björn segir mikla ánægju með íbúðirnar.

„Við erum með frekar fáa fermetra í íbúðunum en við nýtum þá vel og fólk hefur verið mjög ánægt með þessar íbúðir.Við erum oft að sjá mjög hamingjusamt fólk sem er að komast úr mjög erfiðum húsnæðisaðstæðum. Þar sem jafnvel fjögurra manna fjölskylda er í einu herbergi, komin í nýja glæsilega fjögurra herbergja íbúð, veitir mikla gleði fyrir okkur og viðkomandi aðila,“ segir Björn.

Björn segir talsvert um að Bjarg þurfi að vísa fólki frá sem ekki uppfylli skilyrði fyrir því að fá íbúð hjá þeim. Þar á meðal eru öryrkjar sem þurfa að leita til Brynju leigufélags en þar bíða yfir 300 en lokað var fyrir nýskráningar á biðlista fyrir þrjá ár, þegar um 600 biðu.