Óbólusettir útlendingar ekki að sliga heilbrigðiskerfið...

Almannavarnir reyna eftir fremsta megni að hvetja fólk af erlendum uppruna til þátttöku í bólusetningu við kórónuveirunni. Upplýsingar um gildandi takmarkanir, bólusetningu og stöðu faraldursins eru þýddar á ótal tungumál. Þá hafa almannavarnir einnig reynt að nálgast fólk í gegnum samfélagshópa eins og kirkjur. Bólusetningarbíll sem keyrir um götur borgarinnar með barmafullar sprautur af bóluefni hefur gefið ágæta raun, en ákveðinnar tortryggni gætir meðal erlendra verkamanna sem hafa ekki látið bólusetja sig. Ástæðan er sögð bæði skortur á trausti í garð kerfisins og skortur á upplýsingum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti var til viðtals í franska dagblaðinu Le Parisien. Þar er haft eftir forsetanum að hann vilji endilega ergja óbólusetta og því verði haldið áfram þar til yfir lýkur. Það er óhætt að segja að þessi ummæli hafi fallið í grýttan jarðveg. Gera þurfti hlé á þingfundi á franska þinginu í gær í umræðu um sóttvarnaaðgerðir.

Fundið fyrir fordómum í faraldrinum

Björn Ingi Hrafnsson sagði í vikunni í pistli sínum á Viljanum að það væri bleikur fíll í stofunni, að stór hluti þeirra sem þyrftu á aðstoð heilbrigðiskerfisins að halda væru óbólusettir erlendir verkamenn.

Joanna Marcinkowska, verkefnisstjóri ráðgjafarstofu innflytjenda sagði í Kastljósi í vikunniað ummæli Björns væru nánast útlendingahatur. Fólk af erlendum uppruna hafi orðið fyrir fordómum vegna faraldursins.

„Já við höfum heyrt allskonar sögur og fólk þar sem það er kallað eða beint að ákveðnum þjóðernum í umræðum um covid að það var franska veira eða eitthvað annað og þetta skaðar stöðu alls samfélagsins og það getur ekki gerst aftur.“ segir Joanna.

Fimm af sjö sem liggja inni á gjörgæslu Landspítalans með covid eru óbólusettir. Af þeim 32 sem liggja inni er rétt tæpur helmingur óbólusettur. Landspítalinn veitir ekki nánari upplýsingar um þjóðerni eða uppruna þeirra sem eru á gjörgæslu. Hildur Helgadóttir verkefnastjóri farsóttarnefndar Landspítala segir það ekki eiga við rök að styðjast að óbólusettir útlendingar séu að sliga heilbrigðiskerfið.

„Nei, þetta á nú ekki við rök að styðjast. Það er mikið álag á spítalanum vegna covid innlagna. Þær eru af öllu mögulegu tagi. Óbólusett fólk er náttúrulega tekur heldur mikið pláss á gjörgæslu. Það er allt fólk með íslenska kennitölu. Svo er hópurinn fjölbreyttur, allskonar fólk sem er að fá covid og þarf að leggjast inn vegna þess.“ segir Hildur.

Ungir karlar áberandi

Hildur sagði í nóvember að þeir sem lægju inni á Landspítala þá væru einkum ungir karlmenn, erlent verkafólk og yfirlýstir andstæðingar bólusetninga. Hún sagði jafnframt þá að erlendir verkamenn sem kæmu hingað til lands væru ekki endilega á móti bólusetningum, þeim hefði einfaldlega ekki staðið hún til boða í heimalandinu. Þar sem tiltölulega fái eru inniliggjandi hverju sinni breytast þessar tölur hratt. En hver er staðan nú?

„Það sem er svolítið breytt er að erlendir verkamenn, ég held að skilgreiningin á því sé á reyki. Við erum að tala hérna um fólk sem er með íslenska kennitölu, jafnvel búið hér árum og áratugum saman og á hér þétt net en er kannski ekki fætt á Íslandi. Það eru einhverjir úr þeim hópi alveg eins og þeir sem eru bornir og barnfæddir á Íslandi. Það er ennþá dálítið áberandi með unga karlmenn, alveg sama í hvaða landi þeir fæddust, þeir eru dálítið óbólusettir ennþá en það er líka fólk sem er á móti bólusetningum sem er rammíslenskt.“ segir Hildur.

Hún segir að enn vanti nokkuð upp á örvun hjá ungum körlum sem fengu Janssen bólusetningu á sínum tíma.

Fréttin hefur verið uppfærð