Rýmka sóttkvíarreglur fyrir þríbólusetta...

Heilbrigðisráðherra samþykkti síðdegis breytingu á reglum um sóttkví fyrir þá sem fengið hafa þrjár bólusetningar, í samræmi við tillögur sóttvarnarlæknis. Reglurnar gilda einnig fyrir þá sem hafi fengið tvær bólusetningar og hafa jafnað sig af staðfestu covid-smiti. Þá þurfa þríbólusettir, samkvæmt reglunum,að hafa fengið síðustu sprautuna fyrir meira en 14 dögum, áður en þeir urðu útsettir fyrir smiti. Þeir sem hafi fengið tvær sprautur og smitast af covid, þurfa að hafa smitast meira en 14 dögum eftir að þeir fengu seinni sprautuna.

Heimilt að fara í vinnu og í búð

Þessum einstaklingum verður heimilt að sækja vinnu eða skóla, ásamt því að sækja sér nauðsynlega þjónustu líkt og að fara í matvöruverslanir eða í apótek.

Þeim verður áfram óheimilt að fara á mannamót þar sem fleiri en 20 koma saman, skylt að nota grímu og skylt að forðast einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum smitist þeir af veirunni. Þeim verður óheimilt að sækja heilbrigðisstofnanir, líkt og hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar.