Atvinnurekendur þurfa að upplýsa um bólusetningar...

Forstöðumaður farsóttahúsa segir að margir sem vinna tímabundið á Íslandi búi við óviðunandi aðstæður og séu meðal þeirra sem þurfa forgang í sóttvarnahús. Fjöldi verkamanna sem kom með leiguflugvél í síðustu viku greindist með covid. Atvinnurekendur þurfi að upplýsa starfsfólk sitt um að það hafi aðgengi að bólusetningu hér á landi. Aldrei fleiri í sóttvarnarhúsum

Um fjögur hundruð dveljast í sóttvarnahúsum og hafa aldrei verið fleiri. Nýtt sóttvarnarhús var opnað í dag á hótel Barón þar sem um 90 herbergi bættust við þau 450 sem fyrir eru. Í vikunni mun svo hótel Stormur bætast við. Þá verða alls sex sóttvarnahús í Reykjavík og eitt á Akureyri.

Á milli 80-150 hafa verið á biðlista eftir herbergi að undanförnu og þrátt fyrir fjölgun herbergja bætist fljótt á listann aftur vegna þess fjölda smita sem greinist á degi hverjum. Erlendir ferðamenn sem greinst hafa smitaðir á leið úr landi og heimilislausir Íslendingar eru meðal þeirra sem ekki hafa í önnur hús að venda og þurfa að komast fljótt í sóttvarnarhús. En það eru fleiri þurfa að komast beint inn.

Farandverkamenn búioft við óviðunandi aðstæður

„Farandverkamenn sem eru að koma til landsins, vinna hér og fara svo eitthvað annað. Sá hópur býr oft við óviðunandi aðstæður þar sem eru kannski margir með eitt klósett og eitt eldhús,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa.

Gylfir segir talsvert hafa verið um þetta og þetta sé hópur sem sé mikilvægt að sinna. „Það eru alltaf einhverjir á hverjum degi og stundum eru nokkrir tugir sem eru undir í því tilfelli. Það kom til dæmis í síðustu viku leiguvél með um hundrað manns og þar af var töluverður fjöldi sýktur.“

Sumir ekki haft aðgengi að bólusetningum

„Oft er það þannig að þetta fólk er ekki bólusett. Það er vegna þess að þetta er fólk sem er mikið að ferðast milli landa vegna vinnu og á kannski ekki jafn auðvelt með að komast í bólusetningu og við hin. Ekki það að þau vilji það þekki heldur kannski það að aðstæður þeirra eru þannig,“ segir Gylfi Þór.

Gylfi segir ýmsar ástæður vera fyrir því að þessi fjöldi sé óbólusettur. Hann bendir á að ekki sé alls staðar jafn gott aðgengi að bólusetningum og hér á landi.„Annað er, að margir af þessum verkamönnum eru að þvælast á milli landa, stoppa kannski í nokkra mánuði og eru kannski ekki inni í samfélaginu sem slíku eða vita ekki hvert þeir eiga að fara. Eitthvað sem atvinnurekendur ættu kannski að benda sínu fólki á, að hér sé hægt að fara í bólusetningu ef menn vilja.

Það vita kannski ekki allir af því?

„Nei, það vita ekki allir af því,“ segir Gylfi.