Heilsuvera hefur reynst heilsugæslunni íþyngjandi...

Heilsuvera hefur reynst íþyngjandi á köflum og hefur ekki létt álagi af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eins og til stóð. Samskipti í gengum Heilsuveru hafa tífaldast síðasta árið. Framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir bæði starfsfólk og skjólstæðinga þurfa að læra betur inn á rafræn samskipti svo þau nýtist sem skyldi. Aukið álag hefur verið á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna covid-tengdra verkefna. Eins hefur sóttkví og einangrun starfsmanna haft áhrif, ekki síst í þessari viku þegar 40 til 60 heilbrigðisstarfsmenn hefur vantað á degi hverjum.

Rafræn samskipti hafa einnig aukist mikið. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir rafrænu samskiptin ekki létta mikið á, því samskiptin verði stundum flókin. „Þetta er frekar íþyngjandi. Ef vel er notað að þá er þetta gagnlegt en við þurfum aðeins að læra betur að umgangast þennan rafræna heim,“ segir Sigríður Dóra.

Hún segir að þó sum samskipti séu auðleyst í gegnum Heilsuveru séu mörg sem ekki eigi erindi þangað. „Já aðlögun að þessu stendur yfir og það þurfa allir að átta sig og fóta sig í þessum rafræna heimi og auðvitað er þetta mikil viðbót. Heilsuveru-samskipti hafa tífaldast síðasta árið hjá heilsugæslunni en það léttir ekki á öðru eins og menn héldu. Þetta er klárlega viðbót, ein af mörgum viðbótum við starfið. Þetta er mikill álags þáttur þannig að við þurfum öll að fara í þá vinnu hvernig við ætlum að nota Heilsuveru, öllum til gagns, svo að allir séu sáttir,“ segir Sigríður Dóra.