Stefnt að því að opna Vog á fimmtudag...

Yfirlæknir á Vogi vonast til þess að hægt verði að taka á móti fólki í áfengismeðferð á fimmtudag. Fyrir helgi var spítalanum lokað eftir að þrjátíu og þrír sjúklingar og starfsmenn smituðust af kórónaveirunni.

Eftir að niðurstöður úr PCR skimun lágu fyrir í fyrrakvöld voru sjúklingar og starfsmenn sendir heim. Í gær var Vogur sótthreinsaður.„Ef allt fer á besta veg ættum við að geta tekið á móti sjúklingum á fimmtudag. Á hverjum tíma erum við með inni á Vogi á milli 40 og 50 manns. Hingað koma að meðaltali 6 á dag til að hefja meðferð. Auðvitað er vont að þurfa að rjúfa meðferðina en við ætlum að hringja í alla eftir helgi. Það komast allir að enda þótt það verði einhver töf hjá þeim sem voru komnir með tíma. Þetta er auðvitað ekki ákjósanleg staða en vonandi halda allir sínu striki og koma til okkar”, segir Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir á Vogi.

Í fyrra voru innritanir á Vog um 1800 og sexhundruð af þeim fóruí framhaldsmeðferð á Vík. Þrátt fyrir langa biðlista segir Valgerður að allir komist að. „Það eru á milli 5 og 600 á biðlista og sumir þurfa að bíða lengi. Meðalbiðtíminn er 40 dagar.Veiran slær okkur niður en við stöndum upp.”

Valgerður segist merkja ýmsar breytingar í kórónuveirufaraldrinum. „Það eru ekki bara slæm áhrif af veirunni. Samkomutakmarkanir höfðu áhrif á neyslu ungs fólks. Á síðustu tveimur árum sjáum við að færri af þeim sem eru 40 ára og yngri sækjast eftir því að komast í meðferð.Við merkjum slæm áhrif á þann hóp sem er með sjúkdóminn. Því fólki versnar af daglegri drykkju og aukinni verkalyfjanotkun. Þannig að það eru margar hliðar á þessu, segir Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir á Vogi.