Suðaustanstormur og gul viðvörun...

Suðaustanstormur gengur yfir landið síðla kvölds. Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland og miðhálendi en fleiri slíkar viðvaranir gætu verið i vændum.

Á höfuðborgarsvæðinu er því spáð að vindur nái 18-25 metrum á sekúndu, hvassast á Kjalarnesi. Veðurfræðingur beinir því til fólks að festa vel lausamuni utandyra.

Á Suðurlandi er spáð 20-28 metrum á sekúndu, hvassast undir Eyjafjöllum að Mýrdal þar sem hviður geta náð yfir 45 metrum á sekúndu seint í kvöld og í nótt. Þar gæti þurft að loka vegum.

Hvassviðrinu fylgir talsverð úrkoma sem stendur fram yfir miðnætti en veður á að ganga niður í fyrramálið.