Töluverðar skemmdir og von á öðrum hvelli í kvöld...

Töluvert tjón varð á Nesvegi, sem liggur frá Grindavík að Reykjanesvita, í óveðrinu á fimmtudaginn. Þá var mikið brim og töluvert tjón í Grindavík og víða í höfnum og á sjóvarnargörðum á suðvesturhorninu. Von er á öðrum hvelli í kvöld. Suðaustanstormur gengur yfir landið og búist er við 20-28 metrum á sekúndu á öllu suðvestanverðu landinu með rigningu. Klæðning flettist af Nesvegi á um 300 metra kafla og hefur Vegagerðin lækkað hámarkshraða á veginum niður í 50 og ökumenn hvattir til að fara varlega. Þá varð töluvert tjón í höfnum á suðvesturhorninu en hafnadeild Vegagerðarinnar mun meta tjónið af völdum veðursins um leið og tækifæri gefst, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Þar segir að lægðin þá hafi verið mjög djúp, sjávarstaða há og því hafi snemma verið ljóst að þessi veðuratburður yrði með þeim stærstu á 30 ára tímabili. „Í Grindavíkurhöfn flæddi yfir bryggjukanta sem fóru allir á kaf. Einhverjir sjóvarnargarðar löskuðust vegna veðursins, sjór flæddi inn á svæði hjá Matorku, vestan við Grindavík og golfvöllurinn við Grindavík fór á kaf,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Nesvegur fór illa í óveðrinu. Malbik flettist ofan af honum á 300 metra kafla og þá grófst töluvert úr vegöxlinni fjær sjónum. Verktaki var fenginn til að hreinsa ónýta klæðningu og grjót af veginum en gert verður við um leið og veður og hitastig leyfa.

Spáin er heldur slæm fyrir þetta sama svæði í kvöld og nótt. Spáð er suðaustanstormi sunnan- og vestanlands og jafnvel hvassara syðst. „Einnig suðaustanstormur á N-verðu landinu í nótt og gengur á með hríðarveðri til fjalla á Austfjörðum. Varasamt ferðaveður og eru menn hvattir til að tryggja lausamuni utandyra. Veðrið mun ganga niður í fyrramálið,“ segir á vef Veðurstofunnar.