Skólamál taka helming fjármuna sveitarfélaga...

Um helmingur útgjalda sveitarfélaganna fer í skólamál en þó er afar misjafnt eftir sveitarfélögum hve hátt hlutfallið er. Kostnaðurinn hefur vaxið mikið enda verkefnin að verða fleiri og flóknari. Um fimmtungur barna hefur nú annað móðurmál en íslensku og sífelld krafa er um að yngri og yngri börn fái leikskólapláss. Kastljós hefur fjallað um helstu málaflokkana fyrir sveitastjórnarkosningar þann 14. maí. Skólamálin eru ofarlega í hugum kjósenda enda viðamesti og útgjaldafrekasti flokkurinn. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var 261 leikskóli á landinu árið 2020, flestir reknir af sveitarfélögum en einnig sjálfstætt starfandi leikskólar. Fjöldi barna á leikskólum sama ár voru 18.852 börn og fjöldi stöðugilda var 5523. Kostnaður á hvert barn árið 2020 nam 2,7 milljónum króna og heildarkostnaður vegna allra leikskóla var 58,1 milljarður króna.

Ef við skoðum grunnskólana voru þeir 173 á landinu öllu árið 2020. Fjöldi nemenda var 46.688 og fjöldi stöðugilda sem, sinna kennslu og stjórnun var 5249. Kostnaður á hvern nemanda nam 2,1 milljón króna og heildarkostnaður nam 113 milljörðum.

Kostnaður eykst

Kostnaður við fræðslumálin vex stöðugt. Hann var 122 milljarðar 2016 en 170 milljarðar fimm árum síðar. Og ekki nema eðlilegt að kjósendur spyrji, sérstaklega fyrir kosningar, hvort þessum fjármunum sé ráðstafað á réttan hátt í sínu sveitarfélagi. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir eðlilegt að fólk geri kröfur á það að fjármunir nýtist vel og skili nemendum vel undirbúnum í samfélagið.

Það væri náttúrulega mjög gaman að brjóta niður hveru mikið af þessum kostnaði er til dæmis húsnæðiskostnaður sem í samanburði innan OECD er frekar hár á Íslandi. Það er alveg klárt mál að okkar sýn er sú að við eigum að horfa til þess að íslenskir skólar eiga bara að vera þeir bestu í heimi. Það er bara þannig sem það er að stemmningin í okkar skólakerfi er þannig að við viljum ná árangri.

Mönnun í leikskólum ein stærsta áskorunin

Samkvæmt lögum eiga tveir þriðju hlutar starfsfólks á leikskólum að hafa kennaramenntun sem er fimm ára. Magnús segir að aðeins 28% starfsfólks hafi leikskólakennaramenntun þótt hlutfallið sé misjafnt eftir skólum. Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir tímabært að skoða dagsskipulag leikskólanna.

Að láta þungann af leikskólastarfinu eiga sér stað fyrri part dagsins og jafnvel frá 14til 16þá er bara allt annars konar starf og frjálsari leikur og jafnvel annars konar starfsfólk sem sinnir því á meðan leikskólakennararnir eru í sínum undirbúningi.

Margföldun barna með annað móðurmál en íslensku

Samkvæmt Magnúsi er hátt í fimmtungur barna í íslensku skólakerfi með annað tungumál en íslensku sem móðurmál. Það kallar á margvísleg úrræði og sérhæfingu innan skólanna.

En þetta er verkefni sem er mjög brýnt að verði núna tekið og sett í þann farveg sem okkur er sæmandi sem þjóð.

Stór verkefni eins og skóli án aðgreiningar og ný farsældarlög sem eiga að tryggja snemmtækan stuðning við börn og samþættingu milli skólakerfa verða áfram meðal stærstu verkefna skólakerfisins. Ákveðinn samhljómur er milli leik- og grunnskóla enda bæði skólastigin rekin af sveitarfélögum. Lengra er í land þegar kemur að samfellu milli grunn- og framhaldsskóla.

Vill meiri umræðu um skólamál

Magnús vill sjá meiri umræðu um skólamál, ekki aðeins fyrir kosningar heldur almennt í samfélaginu. Mikilvægt sé að ræða um hvað skólinn eigi að vera og hvaða gæði liggi í kerfinu.

Og ef ég fer út úr mínu hlutverki sem formaður kennarasambands Íslands og verð bara skatt- og útsvarsgreiðandi þá er það þannig að við viljum fá það út úr þessu kerfi sem við erum að setja inn í það við viljum að það sé að ná árangri og við séum að búa betur undir það samfélag sem við erum að setja það inn í.