Forsetinn í sendinefnd sem fundar með Apple og Facebook...

Sendinefnd skipuð forseta Íslands, menningarmálaráðherra og fleirum heldur til Bandaríkjanna í næstu viku til fundar við stjórnendur Apple, Microsoft, Amazon og Meta, sem rekur Facebook og Instagram. Markmiðið er að sannfæra þá um að íslenska eigi að vera hluti af þeirra tungumálaframboði. Sendinefndina skipa auk forseta Íslands og menningarmálaráðherra, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og fulltrúar frá Almannarómi, sem er miðstöð máltækni og ber ábyrgð á að framkvæma máltækniáætlun stjórnvalda.

Tryggja verði íslenskunni sess í stafrænum heimi

„Markmiðið er að koma íslensku inn í þau tæki og inn í þann hugbúnað sem við notum í daglegu lífi,“ segirJóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms.

„Við verðum að tryggja sess íslenskrar tungu í stafrænum heimi,“ segirGuðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Eiga fund með fyrrverandi varaforsætisráðherra

„Við erum að fara á fundi hjá stjórnendum hjá Apple, hjá Meta sem eru með Facebook, hjá Microsoft og hjá Amazon og líka reyndar hjá forstjóra OpenAI,“ segir Jóhanna.

Eruð þið að fara að hitta Mark Zuckerberg?

„Nei, við hittum undirmann hans. Við erum að fara að hitta Nick Clegg sem stýrir samskiptum við stjórnvöld og stefnumótun,“ segir Jóhanna.Nick Clegg var varaforsætisráðherra Bretlands 2010 til 2015.

Var ekkert mál að fá þessa fundi?

„Jú, það var svolítið mál. En það er eins og með allt sem maður vill, maður þarf kannski að hafa aðeins fyrir því en það er allt hægt.Við þurfum að sannfæra stjórnendur þessara fyrirtækja um það að íslenska eigi að vera hluti af þeirra tungumálaframboði,“ segir Jóhanna.

Það eykur á þægindi margra að geta talað við tækin en fyrir aðra er það nauðsyn eins og þau sem eru með sjónskerðingu eða aðra fötlun.

„Til þess að sinna athöfnum í daglegu lífi sem okkur sem eru ekki með fötlun finnast sjálfsagðar,“ segir Jóhanna.

Tæknin hjálpar við íslenskunámið

„Við fjölbreytt þjóð og fólk getur talað íslenska tungu á misgóðan hátt eins og ég er að sanna með þessari setningu núna, því ég hafði ekki alveg hugsað hana fyrir fram, en hún skal standa í þessu viðtali. Tæknin mun hjálpa okkur til þess að læra íslensku öll sem hingað koma t.d. frá útlöndum og vilja vera með í okkar samfélagi eiga að geta notað tæknina til þess að fleyta sér áfram á þessum velli íslenskrar tungu,“ segir Guðni.