Ólga á Húsavík eftir uppsagnir — „Ekkert annað en árás"...

Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur sagt upp sjö starfsmönnum sem sinnt hafa ræstingum á heilsugæslunni á Húsavík og boðið reksturinn út. Formaður stéttarfélagsins Framsýnar segir uppsagninarnar árás á láglaunastétt og gefur lítið fyrir skýringar. Sjö starfsmönnum sagt upp

Heilbrigðisstofnun Norðurlands bauð nýverið út ræstingar á fimm starfsstöðvum sínum. Vikublaðið greindi fyrst frá málinu. Tilboð bárust í ræstingar á starfstöðvum HSN á Húsavík og Akureyri, þar sem slíkt fyrirkomulag var fyrir. Hefur stofnunin því ákveðið segja upp sjö starfsmönnum á Húsavík og semja við verktaka. Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN segir að breytingin sé nauðsynleg til að bregðast við hallarekstri.

„Við spörum á bilinu 15 til 20 milljónir”

„Það er þannig að það er hallarekstur á stofnuninni og við erum að reyna að leita allra ráða til að lækka kostnað og eitt af þeim ráðum var að bjóða út ræstingar. Við spörum á bilinu 15 til 20 milljónir,” segir Jón Helgi.

Illa vegið að þeim sem eru á lægstu laununum

Ekki bárust tilboð í starfstöðvar á Sauðárkróki, Blönduósi og Siglufirði og því verða engar breytingar þar í bili. Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík gefur lítið fyrir skýringar Jóns Helga.„Þetta er ekkert annað en árás og það er svolítið merkilegt að þegar menn setjast við excel-skjalið og ætla fara að skoða hvernig menn geta brugðist við einhverjum fjárhagslegum vanda hjá þessari stofnun að það skuli ráðist að þeim sem eru á lægstu kjörunum hjá stofnuninni,” segir Aðalsteinn.

Nú segir Jón Helgi að með þessu sparist einhverjar milljónir og að hann þurfi að vernda þjónustuna, hefur þú einhvern skilning á þeirri stöðu sem hann er í?

„Nei ég hef ekki nokkurn einasta skilning á því og þessar tölur sem hann hefur lagt fram ég dreg þær mjög í efa og ég held að þetta sé kolvitlaus útreikningur. Ég vísa þessum tölum út í hafsauga.”

„Fólk grátið fyrir framan formann Framsýnar”

Hann segir erfitt að horfa uppá raunir þeirra sem missa vinnuna.„Ég get bara sagt það hér og nú að það eru dæmi um það að menn hafi komið hér og grátið hjá mér. Grátið fyrir framan formann Framsýnar vegna þess að þeir sjá afskaplega lítið framundan vegna þess að þetta eru ekki síst erlendir starfsmenn sem tala ekki okkar tungumál og það er ekki þægilegt fyrir slíka einstaklinga að fá vinnu alls staðar.”