Orðlaus af gleði með íslensku fálkaorðuna...

Forseti Íslands sæmdi þrettán Færeyinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn í Þórshöfn í gær, fyrir björgunarstörf eftir mannskætt flugslys sem varð fyrir 52 árum. Fyrrum lögreglumaður, sem var einn þeirra fyrstu sem heyrði af slysinu, segist orðlaus af þakklæti.
Það var þann 26. september árið 1970 sem TF-FIL, vél Flugfélags Íslands, brotlenti í hlíðum fjallsins Knúks á eynni Mykinesi í Færeyjum. Átta létust í slyslinu. Flugstjóri vélarinnar, Bjarni Jensson, og sjö færeyskir farþegar. 26 komust lífs af. Vélin brotlenti í um 450 metra hæð og vann björgunarliðið þrekvirki við afar erfiðar aðstæður.

Stórkostlegt að fá þessa orðu

Þrettán þeirra eru enn á lífi og í gær sæmdi forseti Íslands þau riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir hugrekki og þrautseigju.Einn orðuhafa er Reðin Leonsson fyrrum lögreglumaður sem fékk fyrstu skilaboðin um slysið. „Ég verð að segja að ég er hrærður. Mér finnst þetta virkilega flott og líka mikið mál.Ég fæ þessu ekki lýst með orðum, verð ég að segja,“ segir Reðin.

Katrin Dahl, fyrrum hjúkrunarfræðingur,var á flugvellinum í Þórshöfn þegar hún fékk fregnirnar og átti að fara með sömu vél til Danmerkur. „Það er stórkostlegt að fá þessa orðu. Það fær hana ekki hver sem er og ekki á hverjum degi, svo mikið er víst,“ segir Katrin.