Sjúkraþyrla ekki orðin að veruleika eftir tvö ár...

Tilraunaverkefni heilbrigðisráðuneytisins um rekstur sjúkraþyrlu hefur ekki verið fjármagnað, rúmum tveimur árum eftir að það var samþykkt af ríkisstjórninni. Þyrlan átti að styrkja viðbragð vegna slysa á suðurhluta landsins. Yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir verkefnið brýnt. Um 350 kílómetrar eru á milli starfhæfra sjúkraflugvalla á svæðinu. Engin þyrla tiltæk í gær

Alvarlegt bílslys varð undir Eyjafjöllum í gærmorgun, þegar bíll valt og hafnaði utan vegar. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, segir að aðkoman hafi verið þannig að það teljist mildi að bílstjórinn hafi sloppið lifandi. Hundur sem var í bílnum slapp einnig ótrúlega vel, og fannst hann í nágrenninu eftir að hafa reikað af vettvangi.

Lögreglan óskaði eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja bílstjórann á sjúkrahús í Reykjavík, en vegna manneklu var þyrlan óstarfhæf. Oddur segir þetta sýna þörfina fyrir sjúkraflug á Suðurlandi.

Ekkert fjármagn borist

Í desember 2019 samþykkti ríkisstjórnin undirbúning tilraunaverkefnis um notkun sérstakrar sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu. Lagt var til að þyrlan væri staðsett á suðvesturhluta landsins þar sem útköll vegna slysa eru tíð, ekki síst á Suðurlandi. Þannig mætti stytta umtalsvert viðbragðstíma í útköllum. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu hefur verkefnið ekki enn verið fjármagnað.

Oddur segist í samtali við fréttastofu vilja sjá verkefniðverða að veruleika, eða að byggðir verði flugvellir svo hægt sé að nota þá sem sjúkra- og öryggisflugvelli. Í skýrslu starfshóps um öryggi lendingarstaða kemur fram að á Suðurlandi eru næstum 350 kílómetrar á milli flugbrauta sem geta þjónað sjúkraflugvélum.

Flugvöllurinn á Höfn í Hornafirði getur þjónað sjúkraflugi. Þaðan eru 455 kílómetrar, eða hátt í sex klukkutíma akstursleið, að bráðamóttökunni í Fossvogi. Næsti sjúkraflugvöllur er svo á Bakka, en um fjögurra og hálfs klukkutíma akstursleið er á milli Bakka og Hafnar.

Starfshópurinn segir nauðsynlegt að byggja upp lendingarstaði hið fyrsta, vegna fjölda ferðamanna og tíðra slysa á svæðinu.